Volkswagen hyggst auka framboð á rafbílum

Forsvarsmenn þýska bílaframleiðandans Volkswagen íhuga alvarlega að fara í miklar breytingar með það fyrir augum að auka framboð á rafbílum til muna á næstu árum. Volkswagen er í dag stærsti framleiðandi rafbíla en ljóst er að eftirspurnin mun aukast verulega á næstu áratugum.

Fyrirtækið ætlar að vera við öllu búið og til skoðunar er að breyta öllu framleiðsluferlinu og vera því í stakk búið að mæta eftirspurninni.

Umfjöllunin um þetta mál hefur verið töluverð í þýsku fjölmiðlum að undanförnu. Til að auka framleiðsluna þarf að ráðast í endurnýjun á verksmiðjum Volkswagen sem fyrir eru  í Hannover og Emden og þeirri tiltekt verði lokið í upphafi árs 2020. Í umræðunni hefur borið til tals að flytja jafnvel hluta að þessari framleiðslu úr landi en það hefur mætt mikilli andspyrnu þýskra verkalýðsfélaga sem hafa töluverð ítök innan Volkswagen.

Staða Volkswagen í rafbílavæðingunni er mjög sterk og þeirri stöðu ætlar fyrirtækið að halda. Til að þau markmið gangi eftir þarf að hafa augun opin og horfa til framtíðar. Það megi í raun aldrei sofna á verðinum.