Volkswagen í forystu Dakar rallsins

Svo virðist sem Volkswagen sé að taka þann sess í Dakarrallinu sem Mitsubishi hafði um árabil, eða allt þar til Mitsubishi hætti að gera út á bílasportið og leysti upp keppnislið sitt. Í gær var ekinn níundi áfangi keppninnar af 14 og lyktaði keppni með þreföldum sigri Volkswagen.

Fyrstur varð Nasser Al Attyah, Carlos Sainz varð annar og Giniel de Villiers þriðji. Carlos Sainz er hins vegar í forystu í keppninni í heild eins og er. Með frammistöðu sinni í gær tókst Al Attyah að draga vel á Carlos, liðsfélaga sinn og aðeins átta og hálf mínúta skilur á milli þeirra nú.

Al Attyah, sem er frá Katar, var í essinu sínu í gær en þá lá leiðin um stórt eyðimerkursvæði í suður Chile. Hann er mikill keppnismaður og sagði áður en hann lagði af stað í gær, að nú væri að duga eða drepast. Síðustu forvöð væru að verða fyrir hann að draga Carlos uppi og komast framúr honum án þess að raska skipulagi liðsheildarinnar.

En þótt Volkswagen liðinu gangi vel þessa stundina er sigur vissulega ekki í höfn enn. Gamli Mitsubishi-kappinn og margfaldur Dakar sigurvegari, Stephane Peterhansel er til alls vís þótt þessa stundina sé hann í fjórða sætinu, tveimur klst. og 13 mín. Á eftir Carlos Sainz. Peterhansel keppir nú fyrir BMW.

Röð keppenda eftir áfanga gærdagsins

1. Nasser Al-Attiyah Volkswagen.

2. Carlos Sainz Volkswagen.

3. Giniel de Villiers Volkswagen.

4. Guerlain Chicherit BMW.

5. Mark Miller Volkswagen.

6. Stephane Peterhansel BMW.

7. Nicolas Misslin Mitsubishi.

8. Leonid Novitskiy BMW.

9. Carlos Sousa Mitsubishi.

10. Orlando Terranova Mitsubishi.

Staðan í heild

1. Carlos Sainz Volkswagen 33h33m40s

2. Nasser Al-Attiyah Volkswagen 8:36s

3. Mark Miller Volkswagen 27:17s

4. Stephane Peterhansel Bmw 2h13m52s

5. Guerlain Chicherit Bmw 2h28m27s

6. Carlos Sousa Mitsubishi 3h44m27s

7. Giniel de Villiers Volkswagen 4h36m28s

8. Guilherme Spinelli Mitsubishi 5h15m42s

9. Leonid Novitskiy Bmw 5h30m58s

10. Robby Gordon Hummer 5h34m20s

 Í dag liggur leiðin frá La Serena til Santiago í Chile, samtals 586 kílómetra, þar af er 238 km sérleið. Áfangi dagsins er um hæðótt landslag og mjög gróðurríkt á köflum. Sumir kaflar leiðarinnar eru talsvert torfærir og krefjast góðrar kunnáttu og getu. Ef hún er ekki til staðar mega keppendur vænta þess að lenda í festum og töfum.