Volkswagen kaupi 500.000 bíla til baka í USA

Reuters fréttastofan greindi frá því í liðinni viku að Volkswagen hefði boðist til að kaupa allt að 500 þúsund bíla til baka í Bandaríkjunum. Þetta sé tillaga sem VW hafi lagt fram í samningaviðræðum við bandarísk stjórnvöld um lausn útblásturshneykslisins sem bandarískir fjölmiðlar hafa nefnt Dieselgate.
 

Allt frá því að dísilpústhneykslið varð opinbert í Bandaríkjunum á sl. ári hafa viðræður staðið yfir milli stjórnvalda og VW um hvernig yrði undið ofan af málinu. Reuters hefur þetta eftir ónefndum heimildum sem greina frá því að endurkaupin skuli ná til allra seldra bíla með tveggja lítra dísilvélum búnum svindlhugbúnaði sem fegraði niðurstöðu mengunarmælinga en sá að öðru leyti til að pústhreinsibúnaður bílanna væri óvirkur. Endurkaupatilboð VW nái hins vegar ekki til seldra bíla með 3ja lítra dísilvélum sem einnig höfðu fyrrnefndan svindlbúnað.

Heimildir Reuters herma ennfremur að Volkswagen muni auk endurkaupa á tveggja lítra dísilbílunum stofna sérstakan eins milljarðs dollara bótasjóð. Hvort og þá hverjir geti sótt í þennan bótasjóð liggur hins vegar ekki fyrir.