Volkswagen kaupir Proton

http://www.fib.is/myndir/Proton.jpg http://www.fib.is/myndir/Proton_LOGO.jpg

Flest bendir nú til þess að Volkswagen kaupi meirihluta hlutabréfa í malasíska bílaframleiðslufyrirtækinu Proton. Fréttastofa Reuters greinir frá þessu í dag.

Þar sem Proton á 80% hlut í breska sportbílafyrirtækinu Lotus mun þetta þýða það að Volkswagen verður ráðandi eignaraðili í Lotus. Engin staðfesting um þessi kaup hefur verið gefin út af Proton né heldur af Volkswagen en búist er við að Volkswagen eignist 51% hlut í Proton og að kaupin verði handsöluð þann 8. febrúar nk. Hverjar eða hversu miklar breytingar verða á högum Lotus í framhaldinu verður væntanlega ljóst þegar tilkynning verður gefin út um kaupin.

GM hafði líka áhuga á að eignast Proton en Volkswagen virðist nú hafa orðið hlutskarpari. Innan Volkswagen grúppunnar eru Audi, Bentley, Seat, Skoda, Lamborghini og Bugatti.
Proton hefur lengi nánast átt heimamarkaðinn í Malasíu. Mest varð markaðshlutdeildin upp á 52% undir lok síðustu aldar. Síðan hefur hún fallið og var 26% í fyrra. Framleiðslan hefur þó ekki minnkað heldur hefur markaðurinn stækkað ört. Framleiðslugeta verksmiðjunnar er 150 þúsund bílar á ári.

Proton bílar hafa náð lítilli fótfestu í Evrópu að Bretlandi undanskildu þar sem þeir hafa náð nokkurri útbreiðslu og reynst ágætlega.