Volvo áfram hjá Ford

http://www.fib.is/myndir/Volvo_logo.jpg

Þrátt fyrir lausafjárvanda Ford í Bandaríkjunum hafa allar hugmyndir um að selja Volvo verið lagðar á hilluna. Jaguar og Land Rover fyrirtækin verða hins vegar seld og nú er svo komið að þrjú fyrirtæki keppa um að eignast þessi gamalgrónu bílamerki, tvö þeirra indversk og eitt bandarískt.

Ford Motor Co. var reyndar fyrir ekki svo löngu við það að setja Volvo á söluskrá en eftir að hafa fengið markaðsrannsóknafyrirtæki til að meta kosti og galla þess að selja og framtíðarmöguleika Volvo, sem reyndar hefur verið að skila Ford ágætum hagnaði undanfarin ár, hefur Ford-forstjórinn Alan Mulally nú kveðið upp úr með það að Volvo verði ekki selt. Þótt Ford vanti sárlega peninga í kassann þá sé lítið vit í því að slátra og éta best mjólkandi kúna í fjósinu.

En Volvo verður gert að spara en fær í staðinn aukið sjálfstæði gagnvart Ford í Detroit segir Mulally og bætir við að um leið eigi að færast ofar í flokk gæðabíla og verða dýrari. Eins og er, kosta Volvo bílar minna en sambærilegir Þýskir gæðabílar frá Benz og BMW. Takist að mjaka verðinu upp í svipaðar hæðir og þýsku bílarnir liggja í, telja Ford-menn að fleiri peningar klingi í kassanum hjá þeim.