Volvo dregur úr bílaframleiðslunni

Volvo ætlar að draga úr bílaframleiðslu sinni um 10 prósent og segja upp 2-300 manns. Ástæðan er sú að salan hefur dregist saman um jafnháa prósentutölu það sem af er árinu miðað við sama tímabil í fyrra. Söluaukning sú sem gert hafði verið ráð fyrir hefur því ekki skilað sér.

Volvo er að fullu í eigu kínverska bílafyrirtækisins Chinese Zhejiang Geely, og er það að frumkvæði eigendanna að seglin eru rifuð í framleiðslunni. Geely keypti Volvo af Ford árið 2010 á 1,8 milljarða dollara og sögðust forráðamenn Geely þá ætla að auka framleiðslu og sölu Volvo bíla um næstum helming fram til ársins 2020, úr rúmlega 400 þúsund bílum árlega í 800 þúsund, þar 200 þúsund í Kína. Nokkuð er langt í að sölumarkmiðin náist, ekki síst í Kína, því að þar seldust 47 þúsund Volvobílar árið 2011.  

Trúnaðarmaður starfsmanna í Volvoverksmiðjunni í Torslanda við Gautaborg segir við Reutersfréttastofuna að búið sé að tilkynna starfsmönnum um fyrirhugaðan framleiðslusamdrátt. Hann segir að ætlunin sé að fara úr 57 framleiddum bílum á dag niður í 50 til 52 bíla sem þýði líklegast að samningar við starfsmannaleigu um vinnu 2-300 manna sem vinna í Torslandaverksmiðjunni verði ekki endurnýjaðir.

Fréttafulltrúi Volvo vildi ekki segja neitt um málið við fjölmiðla í morgun annað en að hálfsársuppgjör Volvo yrði birt í næstu viku. En samkvæmt tölum ACEA sem eru samtök evrópskra bílaframleiðenda þá seldust 9 prósent færri Volvobílar í Evrópu á tímabilinu janúar-júní í ár en á sama tíma í fyrra.

Bandaríkin eru stærsti einstaki markaður Volvo. Þar seldust 67.273 Volvobílar í fyrra. Svíþjóð er næst stærstur en þar seldust 58.463 bílar. Kína er þriðji stærsti markaðurinn. Þar seldust 47 þúsund bílar eins og fyrr er sagt.