Volvo hyggst taka forystu í sparneytni

Á blaðamannafundi Volvo í tengslum við bílasýninguna í Los Angeles sem opnuð verður á morgun sagði Steven Jacoby forstjóri að Volvo Car Corporation ætli að verða leiðandi í framleiðslu á umhverfismildum en jafnframt öflugum bílum í náinni framtíð. „Við ætlum okkur forystuhlutverkið,“ sagði Jacoby. Hann sagði að Volvo réði nú yfir tímamótatækni sem gerir mögulegt að rafvæða miklu meir driflínur bílanna, minnkað brunahreyflana og náð fram verulega minni eldsneytiseyðslu þótt aflið minnki ekkert.  Héðan í frá verði eingöngu fjögurra strokka vélar í Volvo bílum. Fimm, sex og átta strokka vélar verði með öllu óþarfar.

Samkvæmt frétt frá Volvo Car Corporation hefur Volvo náð mestum árangri bílaframleiðenda í Evrópu í því að draga úr CO2 losun bíla sinna, eða 9% á árinu 2010. „Þessi ágæti árangur er að þakka vel skilgreindri áætlun okkar sem nefnist DRIVe Towards Zero og markvissum vinnubrögðum. Ég fullyrði að við munum áfram skjóta öflugustu keppinautum okkar í bílaiðnaðinum ref fyrir rass,“ sagði Stefan Jacoby.

Hin nýja fjögurra strokka vélalína Volvo kallast
 VEA (Volvo Environmental Architecture). Afl bílanna með þessum vélum er sagt verða ekki minna en í þeim sex strokka vélum sem Volvo hefur boðið hingað til. Aflið og sparneytnin næst með raf- og rafeindavæðingu vélanna og drifbúnaðarins og samspili brunahreyfla og rafmótora eða kasthjóla sem byggja upp snúningshraða m.a. við hemlun og skila síðan hreyfiorkunni til drifhjólanna aftur þegar á þarf að halda. „Það er kominn tími til að bílaiðnaðurinn hætti að telja bílvélastrokka. Með því að einskorða sig við fjögurra strokka vélar fæst betra svigrúm til að vinna að því að bæta atriði eins og eldsneytisnýtingu án þess það komi niður á aksturseiginleikum og akstursgleði. Við munum bjóða okkar kaupendum fjögurra strokka vélar sem skila meira afli en nokkrar sex strokka vélar en samtímis miklu sparneytnari,“ sagði Stefan Jacoby.

Hinar nýju rafvæddu fjögurra strokka vélar
 verða bæði bensín- og dísilvélar. Allar verða með beinni eldsneytisinnsprautun og sagðar verða allt að 36% sparneytnari en ámóta vélar að afli og rúmtaki hafa verið hingað til.

Framtíðarbílar Volvo með nýju vélunum verða fáanlegir bæði með hefðbundinni driflínu en líka sem tvíorkubílar eins og hinn nýi V60 sem kemur á Evrópumarkað haustið 2011. Myndin með þessari frétt er af frumgerð hans sem sýnd var á síðustu bílasýningu í Genf. Þetta er tengiltvinnbíll sem fullhlaðinn rafmagni kemst samkvæmt frétt Volvo, 50 km á straumnum einum en eyðir í almennum akstri rétt undir tveimur lítrum af bensíni.