Volvo kynnir „biðraðarbremsu“

http://www.fib.is/myndir/IggridSkogsmo.jpg
Ingrid Skogsmo, yfirmaður bílaöryggisdeildar Volvo.

Talið er að um 75% árekstra í borgarumferð í Svíþjóð séu aftanákeyrslur á hraðannum 30 eða minni.  Nú hefur Volvo brugðist við þessu með því að kynna til sögu búnað sem hemlar bílnum sjálfvirkt sé of stutt í næsta bíl fyrir framan. Búnaðurinn er tölvutengt radarauga sem metur fjarlægð í næsta bíl og sé hún of lítil miðað við hraðann, þá sendir radaraugað boð til hemlakerfisins sem bremsar bílinn niður.

Þetta kerfi hefur hlotið nafnið City Safety og er markmiðið hjá Volvo að reyna að fækka aftanákeyrslum um minnst helming með hjálp þessarar tækni. Búnaður þessi á að koma á almennan markað innan næstu tveggja ára.

Það er vissulega til mikils að vinna að fækka aftanákeyrslum. Fyrir fólkið í bílnum sem ekið er á vinnst það að hálshnykksmeiðslum fækkar og þannig dregur úr þjáningum og heilsutjóni og kostnaði í heilbrigðiskerfinu. Þá dregur jafnframt stórlega úr fjárhagstjóni vegna skemmda á bílum. „Kerfið mun þannig verulega draga úr þeim kostnaði sem óhöpp af þessu tagi hafa í för með sér,“ segir Ingrid Skogsmo, yfirmaður bílaöryggisdeildar Volvo við Auto Motor & Sport.

Ef bíllinn fyrir framan hemlar skyndilega og City Safety reiknar það út að árekstur sé óumflýjanlegur hemlar kerfið bílnum samt til að aðstoða ökumanninn. Það sér til þess að hemlunin verður eins áhrifarík og mögulegt er og gefur ökumanninum þar með kannski betra ráðrúm til að beygja frá og forða árekstrinum.
City Safety kerfið er virkt á hraða upp að 30 km á klst. Sé hraðamunur farartækjanna minni en 15 km á klst getur kerfið einfaldlega hjálpað ökumanni til að forða árekstri en sé hann milli 15 og 30 km á klst. dregur það verulega úr höggþunganum í árekstrinum með því að hægja eins og hægt er á bílnum áður en áreksturinn verður.

Hjartað í þessu kerfi er radarauga sem komið er fyrir í framrúðunni bak við baksýnisspegilinn.  Radaraugað skynjar farartæki allt að sex metra fjarlægð framundan bílnum. City Safety-kerfið er forritað til að bregðast við hindrun framundan, hvort heldur sem hún er á hreyfingu í sömu átt og bíllinn eða kyrr. Kerfið reiknar á einum fimmtugasta úr sekúndu hraðann á hindruninni (farartækinu framundan) og hversu öflug hemlunin þarf að vera til að forða árekstri eða þá að draga úr högginu eins og hægt er. Ef ökumaðurinn bregst við og hemlar annaðhvort of mikið eða of llítið miðað við aðstæður grípur kerfið inn í og annaðhvort dregur úr eða bætir í hemlunarkraftinn og slær af vélaraflinu um leið

City Safety hefur þó vissa annmarka eins og önnur radarkerfi hafa. Næmni skynjarans getur að nokkru ráðist af skilyrðum eins og veðri, t,d, regni eða snjókomu. Nauðsynlegt er því að halda radarauganu sjálfu hreinu og hreinsa burt ís, snjó og óhreinindi. Radaraugað sjálft sér hins vegar jafn vel í myrkri sem birtu sé það á annað borð vel hreint.
http://www.fib.is/myndir/Volvo.safety.jpg

http://www.fib.is/myndir/Volvo-Safety2.jpg