Volvo kynnir nýja barnabílstóla

Volvo varð lang fyrstur bílaframleiðenda til þess að huga að öryggi barna í bílunum og hefja öryggisprófanir á barnabílstólum. Þetta var árið 1960. Nú 56 árum síðar er Volvo að setja á markað þrjár alveg nýjar gerðir barnabílstóla. Við gerð þeirra var hugað sérstaklega að hönnuninni og að þeir væru tæknilega þaulhugsaðir og sem allra þægilegastir.

Þar sem Volvo er ótvíræður frumkvöðull í öryggi barnanna í bílnum hefur safnast upp þekking og reynsla í fyrirtækinu á þessu sviði sem á fáa sína líka. Hálfrar aldar rannsóknir og tilraunir hafa skapað þekkingu á því hvað geristinni í bílnum í bílslysum, hverskonar búnaður og festingar duga best og hvernig og hvar í bílnum er best að koma barnastólnum fyrir svo öryggi barnsins sé best tryggt. Þá séu leiðbeiningar til foreldra um hvernig skuli ganga frá stólnum í bílnum og barninu í stólnum skýrar og einfaldar.

– Við vitum að mörgum finnst allt sem varðar öryggi barnanna í bílnum bæði flókið og illskiljanlegt. Við höfum því um margra ára skeið lagt mikla áherslu á að hafa allar leiðbeiningar um notkun og ísetningu barnaöryggisbúnaðar skýrar og auðskiljanlegar svo búnaðurinn virki rétt ef slys á sér stað, segir dr. Lotta Jakobsson prófessor og tæknistjóri slysavarnadeildar Volvo við Motormagasinet. Hún bendir á að eitt sé að kenna hinum fullorðnu að koma barnastól rétt fyrir í bílnum. Allt annað sé svo að fá barnið til að sitja kyrrt í stólnum, sérstaklega þegar þau verða eldri.

– Aðaláhersla okkar er á að börn séu sem öruggust í bílunum óháð stærð eða aldri. Það þýðir að börn allt að 3-4 ára aldri eiga að sitja í afturvísandi barnastól. Þaðan í frá mælum við með framvísandi barnastólum eða barnasessum fyrir börn allt að 140 sm á hæð. Kostir þess að lítil börn séu í afturvísandi barnastól eru ótvíræðir. Samt láta margir foreldrar börn sín í hugsunarleysi í framvísandi stóla þótt þau séu of lítil til þess. Skýringar sem þeir bera fyrir sig eru ýmsar, eins og þær að það sé auðveldara og að barnið kvarti síður undan fótaþrengslum, segir Lotta Jakobsson.  

Nýju Volvo barnabílstólarnir eru þannig gerðir að þeir hæfa börnum á mismunandi aldri og af misjafnri stærð. Þeir eru af þremur gerðum sem fyrr segir. Sú fyrsta er afturvísandi ungbarnastóll fyrir allt að eins árs börn (allt að 13 kg).  Næsta gerð er einig afturvísandi og er ætluð börnum frá 9 mánaða til 3-4 ára að aldri. Loks er framvísandi stóll/sessa sem fest er með sætisbeltunum fyrir 3-10 ára börn.

Almennt er mælt með því af hálfu Volvo að foreldrar láti börnin sitja sem allra lengst í bakvísandi barnasætum í bílum. Nýju barnasætin eru þróuð og framleidd í samvinnu Volvo og Britax-Römer og hafa verið áreksturs-/slysaprófuð í rannsóknastöð Volvo í Gautaborg (Volvo Cars Safety Centre). Þau koma í verslanir í Evrópu í júnímánuði n.k.