Volvo lúxusbíll

http://www.fib.is/myndir/VolvoCU2.jpg
http://www.fib.is/myndir/VolvoCU4.jpg
http://www.fib.is/myndir/VolvoCU3.jpg

-Þetta verður ekki bara sænskur, heldur skandinavískur lúxusbíll, sagði Stefan Jacoby, hinn þýski forstjóri Volvo við sænska sjónvarpið þegar Volvo afhjúpaði lúxus-hugmyndabíl á bílasýningunni í Shanghai fyrir páska. - Shanghai er rétti staðurinn til að heimsfrumsýna hágæða lúxusbíl því hér eru kröfuhörðustu lúxusbílakaupendurnir, sagði Jacoby ennfremur.

Volvo hefur hingað til ekki verið stórtækur framleiðandi lúxusbíla, heldur fyrst og fremst traustra og mjög öruggra bíla handa norrænni, evrópskri og bandarískri millistétt fyrst og fremst.

Fyrirtækið er enn með höfuðstöðvar sínar í Svíþjóð en er nú að langmestu leyti í eigu Kínverja og hefur sjaldan gengið betur en einmitt nú, gagnstætt hinu sænska bílamerkinu, Saab. Stefan Jacoby forstjóri upplýsti á blaðamannafundi í Shanghai að fyrsti ársfjórðungur þessa árs væri sá besti í sögu Volvo. Miðað við sama tíma í fyrra hefði salan aukist um 13,7 prósent  og alls hefðu 106,827 bílar selst það sem af er árinu 2011. Nýi lúxusbíllinn, sem nefnist Concept Universe markaði þannig nýtt upphaf. „Við munum hlusta vel eftir því hvað kínverskum bílakaupendum finnst um hönnunina og útlitið og yfirfæra það á aðra bíla okkar.“ Hann boðaði jafnframt nýja kynslóð Volvobíla í heild sem byggðir verða á nýjum sveigjanlegum grunni sem sefnist SPA sem stendur fyrir Scalable Platform Architecture. Sá lúxusbíll sem svo fæðist og sem verður afsprengi Concept Universe hugmyndarbílsins verður fyrsti bíllinn sem byggður verður á þessum SPA grunni.