Volvo tapar

http://www.fib.is/myndir/Volvo-xc90.jpg
Volvo Personvagnar (fólksbílar) sem er í eigu Ford, tapaði 11,2 milljörðum ísl. kr. á fyrsta ársfjórungi ársins. Á sama tíma dróst sala nýrra bíla saman um 17 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Móðurfyrirtækið Ford er í betri málum því að á fyrsta ársfjórðungi varð nettóhagnaður Ford í Evrópu upp á 7,5 milljarða ísl. kr. miðað við tap upp á næstum þrefalda þá upphæð í fyrra.

En þótt vel gangi hjá Ford í Evrópu er ekki sömu sögu að segja í Bandaríkjunum. Þar er enn stórtap og markaðshlutdeildin sú versta í sögu fyrirtækisins – einungis 13 prósent.
Alan Mulally forstjóri Ford samsteypunnar sagði í viðtali við Wall Street Journal nýlega að í Bandaríkjunum reru menn lífróður og að frekari niðurskurður og sala eigna stæði fyrir dyrum. Engar kýr væru svo heilagar að sala á þeim væri óhugsandi.

Þá var hann spurður hvort Volvo væri til sölu og vildi hann hvorki játa því né neita. Það túlka sænskir fjölmiðlar í dag sem svo að Volvo sé til sölu. Þeir segjast hafa nafnlausar heimildir fyrir því að í raun hafi sala á Volvo alltaf verið á aðgerðalista stjórnenda Ford næst á eftir sölu á Jaguar og Land Rover.

Auto Motor & Sport í Svíþjóð greinir frá því að starfsfólki Volvo í Svíþjóð sé mjög órótt í því óvissuástandi sem ríkir um framtíð Volvo. Þá dragi það ekki úr óvissunni að stöðugur straumur hópa jakkafataklæddra manna hafi verið um aðalskrifstofur Volvo í Torslanda við Gautaborg um nokkurt skeið.