Volvo til Vesturheims

Volvo boðar nú innrás í Bandaríkin og ætlar að byggja bílaverksmiðju í Suður Karólínuríki skammt utan við borgina Charleston. Þetta verður fyrsta bílaverksmiðja Volvo í Bandaríkjunum til þessa. Volvo bílar hafa í tímanna rás stundum átt góðu gengi að fagna í Bandaríkjunum en bílarnir hafa verið framleiddir í Svíþjóð og fluttir yfir hafið. Nú verður breyting þar á.

Verksmiðjan verður reist í Berkeley sýslu. Frá henni verður stutt til stórrar hafnar við Atlantshafsströndina sem er hagstætt vegna flutninga frá höfuðbóli Volvo í Gautaborg. Stór kostur við staðsetninguna þarna þykir líka að nægt og vel menntað vinnuafl er til staðar þar sem ýmis bílatengdur iðnaður, þar á meðal hátækniiðnaður fyrirfinnst nú þegar. Og í Spartanburg (ca 300 km frá) er mjög stór BMW bílaverksmiðja.  

Byggingaframkvæmdir hefjast fljótlega og á verksmiðjan að taka til starfa 2018 og framleiða stærstu Volvobílana, eins og 90 línuna. Afköst verksmiðjunnar verða í fyrstunni um 100 þúsund bílar á ári og starfsmenn verða um fjögur þúsund auk afleiddra starfa sem verða til  hjá undirframleiðendum í grenndinni.