Volvo V60 tengiltvinnbíll

Í frétt frá Volvo í Svíþjóð segir að ný tengiltvinn-útgáfa af Volvo V60 verði sýnd á bílasýningunni í Genf þann 1. mars nk. Bíllinn sé tilbúinn til að fara í fjöldaframleiðslu og sé afburða sparneytinn – eyði aðeins 1,9 lítrum á hundraðið og gefi frá sér minna en 50 grömm af CO2 á hvern kílómetra. Volvo geti með þessum bíl orðið fyrstur til að fjöldaframleiða jafn sparneytinn bíl, en þróun tækninnar í þessum bíl hafi verið samvinnuverkefni Volvo og sænska orkufyrirtækisins Vattenfall.

Volvo V60 tengiltvinnbíllinn sameinar að sögn Stefan Jacoby forstjóra Volvo, bestu eiginleika sportbíla, hefðbundinna fjölskyldubíla og herragarðsvagna eða „stationbíla.“ Hægt sé að aka bílnum allt að 50 kílómetra á rafmagni einvörðungu.

Aðalvélin í V60 tengiltvinnbílnum er 215 hestafla 2,4 l fimm strokka D5 túrbínudísilvél með sex gíra sjálfskiptingu sem knýr framhjólin og rafal sem framleiðir straum fyrir 12 kílóWattstunda líþíumgeymasamstæðu. Við afturhjólabúnaðinn er sambyggður 70 hestafla rafmótor sem bæði vinnur með dísilvélinni við að knýja bílinn áfram eða knýr hann einn.

„Ef fá á sanna bílamenn til að hugsa „grænt,“ verður að gera þeim það mögulegt og fá þeim bíl í hendur sem gefur frá sér mjög lítið gróðurhúsaloft í akstri án þess að gefa neitt eftir í afli, aksturseiginleikum og akstursgleði. Það gerum við með þessum hátæknivædda bíl,“ segir Stefan Jacoby sem lengi var yfirmaður keppnisbílasviðs Mitsubishi og þar með æðsti yfirmaður hins sigursæla Dakar-ralliðs Mitsubishi sem nú hefur verið lagt niður.