Volvo vantar 1200 nýja starfsmenn

Volvo Personvagnar sem nú er í eigu Kínverja, virðist  í rífandi uppgangi og Stefan Jacoby, hinn þýski forstjóri og fyrrum stjórnandi hjá Volkswagen og Mitsubishi auglýsir nú grimmt eftir allt að 1200 nýjum starfsmönnum, fyrst og fremst verk- og tæknifræðingum til starfa við þróun rafbíla og rafbúnaðar í ofursparneytna framtíðarbíla Volvo.

Eins og raunar gerðist hjá bílaiðnaðinum varð viðsnúningur á árinu 2010 og ekki síst hjá Volvo sem jók söluna það ár um 11,6 prósent miðað við árið á undan og skilaði auk þess rekstrarhagnaði.  Nú hefur Volvo kynnt nýja Volvo S- og V-60 bíla og væntanlegur er V60 sem tengiltvinnbíll, sá fyrsti hjá Volvo nokkru sinni.

Reksturinn það sem af er þessu ári hefur gengið mjög vel og aukin eftirspurn er eftir Volvo bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Verksmiðja Volvo í Gent í Belgíu hefur aldrei gengið betur og framleitt jafn mikið og nýbúið er að stækka verksmiðjuna í Torslanda við Gautaborg til að anna aukinni eftirspurn.

Nú stendur til að ráða 900 nýja verkfræðinga og 100 tæknimenn í þróunarmiðstöðvar og verksmiðjur Volvo í Svíþjóð og 200 manns vantar í verksmiðjuna í Gent í Belgíu. Þetta er lang stærsta mannaráðning í sögu Volvo.

Verkfræðingarnir nýju eiga flestir að starfa við hönnun og þróun tæknibúnaðar í bíla og við hönnun og þróun nýrra bíla en Volvo ætlar sér stóra hluti í því að þróa tæknilega fullkomna og ofursparneytna bíla framtíðarinnar.