Volvo veðjar á Svíþjóð

Í frétt sem Volvo Car Group sendi út fyrir stundu kemur fram að framtíðaruppbygging fyrirtækisins verður fyrst og fremst í heimalandinu Svíþjóð. Nýjar gerðir véla verða þróaðar og framleidddar í Skövde í Svíþjóð. Vélaáætlunin nefnist VEA (Volvo Engine Architecture). Þá verða nýir undirvagnar þróaðir. Þeir verða þannig að auðvelt verður að stækka þá og minnka. SPA (Scalable Product Architecture). Samsetningarverksmiðjan í Torslanda við Gautaborg verður endurnýjuð og ný yfirbyggingaverksmiðja reist þar og önnur í bænum Olofström. Það þýðir að Volvobílar framtíðar verða byggðir að stórum hluta í Svíþjóð. Alls verða nýfjárfestingar Volvo upp á 11 milljarða dollara fram til ársins 2015, þar af rúmur helmingur í Svíþjóð. Þetta er meðal mestu fjárfestinga í stóriðjusögu Svíþjóðar.

Stærstur hluti framtíðarfólksbíla Volvo verður byggður á SPA undirvögnum (Scalable Product Architecture). Samhliða því að þróa þennan nýja undirvagn (-vagna) verður þróuð ný lína sparneytinna véla sem allar verða fjögurra strokka. Nýir bílar með tvíorkudriflínum (brunahreyfill/rafhreyfill-gírkassi og drif) verða byggðir í Torslandaverksmiðjunni og driflínurnar verða samhæfðar þar.

Fyrsti nýi bíllinn sem byggður verður á nýjum SPA-undirvagni og með nýju fjögurra strokka VEA-vélina verður næsta kynslóð Volvo XC90 sem væntanlegur er á markað síðla árs 2014.