Volvo verksmiðjan í Belgíu

http://www.fib.is/myndir/Volvo-Gent.jpg
Starfsmenn leggja lokahönd á Volvo nr. 4 milljónir í Gent í Belgíu.

Volvo hefur byggt bíla í Gent í Belgíu í 43 ár. Nýlega rann fjórði milljónasti Volvóinn af færibandinu í Gent. Bíllinn er af gerðinni Volvo V50 með svonefndum R Design-búnaði. Bíllinn var byggður eftir pöntun frá kaupanda í Breda í Hollandi.

Á þessu ári hefur Volvo haft ástæðu til að fagna ýmsum áföngum á vegferð sinni. Þann 19 febrúar sl. var sagt frá því hér á fréttavef FÍB að 15 milljónasti Volvóbíllinn rynni af færibandi Uddevalla verksmiðjunnar í Svíþjóð daginn eftir, þann 20. Febrúar. Í júní rann svo 6 milljónasti bíllinn út úr verksmiðjunni í Torslanda við Gautaborg og nú bíll númer 4 milljón í Belgíu.http://www.fib.is/myndir/Volvo-Gent2.jpg

Volvo hefur starfrækt verksmiðjuna í Gent í Belgíu síðan 1965. Fyrstu Volvóarnir sem þar voru byggðir voru af gerðinni Amazon, þá Volvo 140, síðan 240, 740/940, 850 og S70/V70. Í dag eru framleiddar gerðirnar C30, S40, V50 og S60 í Gent.

Sem dæmi um stöðugt vaxandi afköst Gent verksmiðjunnar má nefna að árið 1988 var Volvo nr. milljón byggður í Gent. Árið 1997 kom bíll númer 2 milljónir. Árið 2004 kom bíll númer 3 milljónir og nú fjórum árum síðar bíll númer 4 milljónir.

Innan skamms hefst í Gent framleiðsla á nýja jepplingnum Volvo XC60. Hjá Volvo eru miklar vonir bundnar við þennan nýja bíl og að hann muni snúa vörn í sókn hjá fyrirtækinu. Á myndinni tekur hollenski kaupandinn th. við 4. milljónasta Volvónum frá Gent í Belgíu.