Volvo XC90 er bíll ársins 2016 á Íslandi

Volvo XC90 er bíll ársins á Íslandi þetta árið. Bandalag íslenskra bílablaðamanna, BÍBB, stóð að valinu líkt og önnur ár og voru úrslitin kynnt í dag. Volkswagen Golf GTE hreppti annað sætið og Audi Q7 það þriðja. Alls voru 30 bílar í forvalinu í ár og af þeim komust 15 í úrslit í fimm mismunandi flokkum. Gjaldgengir voru nýir bílar og nýjar kynslóðir eldri bíla sem komið hafa til landsins frá því valið fór fram í fyrra. Flokkarnir voru sem hér segir: Smærri fólksbílar, stærri fólksbílar, jepplingar, jeppar og umhverfisvænir bílar.

Úrslitabílarnir voru teknir til lokaprófana snemma í septembermánuði á nýrri og stórbættri akstursbraut Kvartmíluklúbbsins. Í kjölfarið var bílunum gefin einkunn í 12 mismunandi þáttum og þannig skorið úr um sigurvegarann.

Í flokki smærri fólksbíla fór Citroën C4 Cactus með sigur af hólmi á undan Mazda 2 sem lenti í öðru sæti og Skoda Fabia þar á eftir í því þriðja. Í flokki stærri fólksbíla var Volkswagen Passat sigurvegarinn, Skoda Superb í öðru sæti og Ford Mondeo í þriðja sæti. Í jepplingaflokki sigraði Mazda CX-3 og á eftir honum komu Renault Kadjar og Nissan X-Trail í öðru og þriðja sæti. Í flokki jeppa varð, eins og áður segir, Volvo XC90 hlutskarpastur, en hann var stigahæstur allra og því réttmætur bíll ársins. Skammt á hæla hans kom Audi Q7 og þar á eftir Land Rover Discovery Sport. Loks sigraði tengiltvinnbíllinn Volkswagen Golf GTE flokk umhverfisvænna bíla, Tesla Model S hafnaði í öðru sæti og Volkswagen e-Golf í því þriðja.