Vorhreinsun í húsagötum

Vorhreinsun í Reykjavík er komin vel af stað og nú er komið að húsagötum. Forsópun hefst í dag mánudaginn 26. apríl, en eftir um viku verða viðkomandi götur síðan sópaðar og þvegnar og er það þá sem nauðsynlegt er að færa bíla. Sú nýbreytni er í ár að daginn áður en íbúagötur eru þvegnar sendir Reykjavíkurborg SMS til að láta íbúa vita.  

Mikilvægt að færa bíla

Mikilvægt er að bílar séu færðir úr götunni á meðan á götuþvotti stendur. Það flýtir mjög fyrir og skilar betri þrifum þegar bílar eru færðir og ekki lagt á ný fyrr en hreinsun er að fullu lokið. Þetta gildir eingöngu um almenn stæði í götunni og á borgarlandi en ekki stæði innan lóðarmarka íbúðarhúsa og fyrirtækja.

Símaskilaboð send daginn fyrir götuþvott

SMS er sent til íbúa daginn áður til að tryggja að allt gangi sem best fyrir sig en hefðbundnar skiltamerkingar verða enn fremur settar upp til að láta íbúa og gesti borgarinnar vita af götuþvottinum. Vonast er til að fólk taki vel í þessa nýbreytni sem skilaboðin eru og liðki til við hreinsunina með því að færa bíla sína en það skilar hreinni og fallegri götum.

Byrjað verður í Grafarvogi, Vesturbæ, Hlíðum og Kjalarnesi.

Á vef hreinsunar má leita eftir nánari upplýsingum um hvernig vorhreinsun fer fram, hvaða tæki og tól eru notuð og skoða fyrri verkáætlanir svo eitthvað sé nefnt.

Athugið að Vegagerðin sér um rekstur og hreinsun þjóðvega í þéttbýli. Dæmi um þjóðvegi í borginni eru Kringlumýrarbraut, Miklabraut, Hringbraut, Vesturlandsvegur og Reykjanesbraut.

Verkáætlun Vorhreinsunar – hér geta íbúar séð hvenær kemur að hverfinu þeirra.