VW bíða risasektir

Rannsókn á pústfölsunarmáli Volkswagen er hafin í Bandaríkjunum og miðað við hvernig málið virðist vaxið á þessari stundu, þykir líklegt að Volkswagen samsteypunni verði gert að greiða risasektir upp á 18 milljarða dollara. Eins og komið hefur fram lét fyrirtækið smíða sérstakan hugbúnað og koma fyrir í dísilbílum. Hugbúnaðurinn sá til þess að gera útblásturshreinsibúnað óvirkan í allri notkun en virkja hann þegar bílarnir undirgengust mengunarmælingu.

Mike Jackson forstjóri AutoNation Inc, stærstu bílasölukeðju Bandaríkjanna, sagði í viðtali við CNBC sjónvarpsstöðina í morgun að orðspor Volkswagen í Bandaríkjunum hefði skaðast mjög í kjölfar fregna af pústsvindlmálinu og spurning hvort vörumerkið ætti sér viðreisnar von næsta áratuginn. Það myndi koma í ljós fljótlega og framhaldið síðan ráðast af því hvernig fyrirtækinu tekst að vinna úr stöðunni næstu daga, vikur og mánuði. „En þetta er allt saman enn eitt kjaftshöggið fyrir dísilvélina yfirleitt,“ sagði Jackson.

AutoNation keðjan selur nýja og notaða bíla af flestum þeim tegundum sem fáanlegar eru í Bandaríkjunum. Keðjan rekur sex sölu- og þjónustustöðvar fyrir Volkswagen og átta fyrir Audi í USA.