VW er að þróa nýjan ódýran „heimsbíl“

Á teikniborðum Volkswagen í Wolfsburg er nú verið að vinna að nýjum bíl. Hann á að kosta 3.000 evrur í framleiðslu og verða svar VW við lágverðsbílnum Renault Logan. Logan kostar út úr búð 7.200-7.500 evrur sem þýðir að á Íslandi myndi hann kosta undir einni milljón króna. Hann er aðallega seldur í löndum Austur-Evrópu en einnig er talsverð eftirspurn eftir honum í Frakklandi.
Vinnuheiti nýja VW lágverðsbílsins er –3-K og er ætlunin að smíða hann í Kína og þar og í fleiri Austurlöndum fjær verður hann markaðssettur í fyrstunni. Samkvæmt heimildum Auto Motor & Sport innan VW verður nýi bíllinn fjögurra dyra stallbakur með tiltölulega stóru farangursrými og rúmbetri, en þó ódýrari en hinn nýi brasilíski VW smábíll, Fox.
3-K verður byggður á einfaldri botnplötu eða undirvagni sem verður hinn sami allsstaðar. Einhver mismunur verður í ytra útliti bílsins eftir því á hvaða markaðssvæði hann verður boðinn, segir Auto Motor & Sport.