VW fær verðlaun fyrir TSI-mótorinn

http://www.fib.is/myndir/VW_TSI_motor.jpg


VW TSI, 1,4 l dísilvél, 170 hö.

Volkswagen hefur fengið viðurkenningu bílatímaritsins Auto Motor & Sport fyrir nýju dísilvélina sína sem aðeins er 1,4 lítrar að rúmtaki en samt gríðarlega öflug (170 hestöfl) en um leið sparneytin. Viðurkenningin nefnist Paul Pietsch-verðlaunin 2006.

Í úrskurði dómnefndar segir að TSI vélin sé árangur einstaks brautryðjendastarfs innan bílgreinarinnar. Tekist hafi að þróa og og koma í framleiðslu bílvél sem bæði er mjög öflug en um leið óvenjulega sparneytin og nýtin á eldsneytið. Rudolf Krebs yfirverkfræðingur vélaþróunardeildar Volkswagen tók við verðlaununum fyrir hönd VW. Hann sagði að úrskurðarorð dómnefndarinnar væru í samræmi við þá forskrift sem hönnuðir vélarinnar unnu eftir við þróun hennar. Markmiðið hefði verið að ná fram betri eldsneytisnýtingu og væri TSI vélin um 10 prósentum eyðslugrennri en aðrar jafn öflugar bílvélar almennt eru. „Við höfum sett nýjar viðmiðanir í þessum efnum og verðlaunin eru gleðileg viðurkenning þess að okkur hefur tekist ætlunarverkið,“ sagði Krebs.

http://www.fib.is/myndir/VV-eos-coupe.jpgNýja vélin kom fyrst fram í Golf GT og verður fáanleg í VW Touran og nýja sportbílnum VW EOS innan skamms. Sú tækni sem TSI-vélin vinnur eftir er ný af nálinni og er að meginhluta fólgin í því að við hana eru tvær forþjöppur, önnur er venjuleg útblásturstúrbína en hin er knúin af sveifarás vélarinnar. Sú síðarnefnda byggir upp yfirþrýsting þegar á mjög lágum vélarsnúningi. Um miðbik snúningssviðsins vinna þær svo saman en efst í snúningssviðinu vinnur útblásturstúrbínan svo ein. Þetta skýrist betur á meðfylgjandi teikningu. Það sem vinnst með þessu er mjög jöfn vinnsla eða tog allt frá hægagangi upp í hámarkssnúning vélarinnar, mjög snögg svörun og snöggt viðbragð við inngjöf og ótrúlega mikið afl úr vél sem er ekki stærri að rúmtaki en í vélar eru í minnstu smábílum og loks óvenju lága eldsneytiseyðslu miðað við afl.

Í Golf GT skilar TSI vélin 125 kW (170 hö) en olíueyðslan í blönduðum akstri er einungis 7,2 l á hundraðið. Í jöfnum akstri á vegi er eyðslan undir 6 l á hundraðið. Samkvæmt frétt frá Volkswagen er TSI-mótorinn ekki tiltakanlega dýr í framleiðslu þrátt fyrir hið tvöfalda túrbínukerfi. Framleiðslukostnaðurinn sé svipaður og við að framleiða venjulegan tveggja lítra bensínmótor. TSI mótorinn hafi hins vegar  það framyfir tveggja lítra mótrinn að hann eyðir minna eldsneyti, er léttari og hafi meiri og jafnari vinnslu (tog) yfir alt snúningssviðið en hinn hefðbundni auk þess að vinnslan sé miklu meiri á lágum og miðlungs snúningi vélarinnar, einmitt eins og í öllum venjulegum daglegum akstri.
http://www.fib.is/myndir/VW_TSI_system.jpg