VW Fox fær fjórar stjörnur – Logan aðeins þrjár

The image “http://www.fib.is/myndir/Logan.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
ADAC í Þýskalandi, systurfélag FÍB hefur árekstursprófað tvo af ódýrustu smábílunum í Evrópu samkvæmt sömu aðferðum og kröfum og EuroNCAP beitir. Niðurstaðan er sú að nýi smábíllinn frá Volkswagen sem reyndar er smíðaður í Brasilíu, fær fjórar stjörnur af fimm. Renault/Dacia Logan fær hins vegar einungis þrjár. Báðir þessir bílar eru nú í prófun hjá EuroNCAP og verða niðurstöður birtar í lok mánaðarins.
Þótt bíll sé smíðaður í landi þar sem vinnuafl er ódýrt þarf það greinilega ekki að þýða að úrkoman verði óöruggur bíll. Hönnunin skiptir greinilega höfuðmáli og það virðist sýna sig með VW Fox. VW Fox er arftaki bæði VW Polo sem nú er orðinn stærri og meiri bíll en áður, og VW Lupo sem ekki er lengur framleiddur. Foxinn stóðst vel framaná-árekstur og fékk 27,4 stig af 34 mögulegum sem skipar honum meðal sterkustu smábíla.
Í þeirri prófunarlotu sem nú stendur yfir hjá EuroNCAP er búið að prófa nýja þríburabílinn Toyota Aygo/ Citroen C1/ Peugeot 107 og hafa meginniðurstöður um þá bíla verið birtar. Samanborið við þríburabílinn kemur Foxinn betur út úr framaná-árekstri en þríburabíllinn.
Hvað varðar hinn nýja Renault/Dacia Logan er niðurstaða ADAC heldur verri, eða einungis þrjár stjörnur. Þá hefur spurst út að niðurstaðan hjá EuroNCAP sé sú sama – þrjár störnur. Það hljóta að vera talsverð vonbrigði fyrir Renault sem átt hefur hvern fimm stjörnu bílinn af öðrum um árabil, þar á meðal nýja smábílinn Renault Modus sem hlaut fimm stjörnur í september sl.