VW Golf VI kominn til Íslands

http://www.fib.is/myndir/VW-GOlf-VI-ekid.jpg

Sjötta kynslóð af Volkswagen Golf, sem sl. haust var frumsýndur bílablaðamönnum heimsins á Íslandi, er nú loks að koma í sölu á Íslandi. Golf VI er kominn til Íslands og verður sýndur almenningi á morgun, föstudag 8. maí og á laugardag.

Golf VI fékk ágæta dóma bílablaðamannanna sem reynsluóku honum á Íslandi sl. haust og fyrir fáum vikum var bíllinn útnefndur Heimsbíll ársins 2009. Að vali á heimsbíl ársins koma 59 bílablaðamenn frá 25 löndum. 
 http://www.fib.is/myndir/VW-GOlf-VI-2.jpg
Volkswagen Golf fæst nú með óvenju mörgum vélamöguleikum en mestur áhugi er meðal bílablaðamanna og bílaáhugamanna fyrir TSI bensínvélinni sem hlaut alþjóðleg vélarhönnunarverðlaun árið 2008. TSI vélin er sérstök fyrir það hversu lítil hún er, en aflmikil og nýtin á eldsneytið. TSI vélin sem er yfirleitt einungis 1,4 l að rúmtaki, fyrirfinnst í nokkrum mis öflugum útfærslum. Sameiginlegt er þó með útfærslunum að allar eru þær með forþjöppu sem tengd er sveifarási vélarinnar og einnig útblásturstúrbínu. TSI vélarnar þykja nýta mjög vel eldsneytið og vera sparneytnar þrátt fyrir að ekki skorti þær afl.

Golf VI fæst einnig með TDI dísilvélum eins og áður og sú sem líklegast verður eftisóttust er 1,968 l að rúmtaki. Uppgefin eyðsla hennar  er 4,9 l pr. 100 km á langkeyrslu samkv. Evrópumælingu.
 
Volkswagen Golf hefur undirgengist áreksturspróf EuroNCAP og hlaut þar fimm stjörnur. Geta skal þess að samkvæmt nýjum reglum stofnunarinnar geta einungis þeir bílar fengið fimm stjörnur sem búnir eru ESC stöðugleikabúnaði.

Nýr Golf verður einnig frumsýndur hjá umboðsmönnum  HEKLU á Akureyri, Akranesi, Reykjanesbæ og á Selfossi um helgina. Opið verður 10-18 á föstudag og 12-16 á laugardag.