VW kaupir 19,9% í Suzuki

Nú hefur það verið staðfest að Volkswagen AG kaupir 19,9 prósent í Suzuki Motor fyrir 2,5 milljarða dollara. Með kaupunum verður Volkswagen stærsta bílaframleiðslufyrirtæki heims, sem einmitt hefur verið markmið stjórnar VW. Hingað til hafa menn þó ekki reiknað með að ná þessu markmiði fyrr en 2018.

Upp á síðkastið hefur verið mjótt á munum milli Volkswagen og Toyota og samkvæmt sölutölum frá fyrri helmingi ársins seldust af þeim tíu vörumerkjum innan vébanda Volkswagen samsteypunnar samtals 3,265 milljón bílar. Toyota seldi aðeins fleiri bíla eða 3,564 milljón stykki af Toyotabílum og öðrum vörumerkjum innan Toyota samsteypunnar (aðallega Lexus). En ef við nú bætum sölutölum Suzuki frá sama tímabili við tölurnar frá Volkswagen þá er útkoman vissulega nokkru hærri en hjá Toyota.

 Fréttin um kaupin var send til fjölmiðla í morgun og í tilkynningu Volkswagen stóð að nú hefðu tvö leiðandi bílaframleiðslufyrirtæki ruglað saman reytum og verða því mun hæfari en ella til að takast á við krefjandi verkefni sem bíða. „Sameinaðir hámörkum við möguleika okkar til að eflast og dafna enn frekar,“ segir í tilkynningunni.

 Það var General Motors sem um árabil átti hlut í Suzuki. Stærstur varð hann um 20 prósent. GM seldi fyrir um ári þau Suzuki hlutabréf sem enn voru í eigu gamla risans og það var Suzukifélagið sjálft sem keypti þau þá af GM. Þessi sala var augljóslega foprsenda kaupa VW í dag.

 Í fréttum fyrirtækjanna í dag kemur ekkert fram um hvernig samstarfinu verði háttað í framtíðinni en víst þykir að VW muni nýta sér grunnplötur þeirra smábíla og aðra smábílabyggingatækni sem Suzuki hefur vel á valdi sínu.  Þá hefur Suzuki trausta markaðshlutdeild á bílamörkuðum Asíu sem án efa getur nýst Volkswagen og góð staða Volkswagen á Ameríkumarkaði getur á sama hátt orðið ágætur stökkpallur fyrir Suzukibíla inn á þann markað.