VW-málið - Innkallanir hefjast í mars

Fréttavefur FÍB sendi fyrir nokkru svohljóðandi skriflega fyrirspurn til Friðberts Friðbertssonar forstjóra Hekla hf, innflytjanda VW bifreiða: -Hver er staðan varðandi þá dísilbíla hér á landi  sem forritaðir voru til að fegra niðurstöður útblástursmengunarmælinga? Hefur VW AG lagt ykkur einhverjar línur og ef svo er, hverjar eru þær?

Svohljóðandi svar hefur nú borist:

-Fyrirhugað er að innköllunarvinna hefjist í byrjun marsmánaðar. Þá verður áherslan á 2ja lítra vélarnar. Aðgerðin felur í sér að hugbúnaður vélarstjórnkerfis verður uppfærður þannig að útblástur vélanna standist EU5 kröfurnar.

 Bílar með minni vélunum, þ.e. 1,2 lítra og 1,6 lítra verða innkallaðir síðar á árinu. Aðgerðin á 1,6 lítra vélinni felur í sér að hugbúnaður vélarstjórnkerfis verður uppfærður og settur verður í loftinntakið loftbeinir sem stýrir loftstraumnum umhverfis loftflæðiskynjarann. Þessar aðgerðir miða að því að útblástur vélanna standist EU5 kröfurnar.Tæknileg lýsing á málinu er á síðu Volkswagen:

Enn sem komið er hefur enginn bíll utan tilraunabíla verið uppfærður. Svo vitnað sé í upplýsingar sem HEKLU hafa borist um ýmis atriði varðandi innköllunina, framkvæmd og framvindu hennar og afleiddar breytingar, þá er ekki þess að vænta að eldsneytisnotkun eða afköst vélanna muni breytast.  (leturbr. FÍB)