VW Multivan

Lesendur Auto Motor & Sport í Þýskalandi hafa valið besta bíl heims – þann bíl sem þeir vilja helst eignast og það er heimabíll sem vinnur hnossið í ár; VW Multivan. VW Multivan þykir Þjóðverjum vera hinn ágætasti fjölskyldubíll með rými fyrir alla fjölskylduna í einu. Hann þykir góður í akstri og ekkert líkur stórum sendibíl, með sparneytnar nýjar dísilvélar. Multivan er í rauninni gamla „VW rúgbrauðið“ meðan VW Caravelle er miklu nýrri hönnun, en það er eldri hönnunin sem Þjóðverjarnir kjósa.

 VW  Multivan hefur lítið breyst í ytra útliti um langt árabil en innviðir hans hafa breyst og þykir hann vera orðinn einn sá auðveldasti bíll í akstri af bílum í þessum flokki. Mest og best búna útfærsla bílsins nefnist 2,0 BiTDI DSG 4Motion og vísar þessi nafngift til þess að vélin sé tveggja lítra dísilvél með tveimur túrbínum. Hún er 180 heltafla og með 400 Newtonmetra vinnslu. Við hana er sjálfskiptur DSG gírkassi og sítengt fjórhjóladrif.

 DSG gírkassi  er í rauninni hefðbundinn gírkassi en með tveimur kúplingum sem skipta milli gíra á sjálfvirkan hátt en hægt er að aka honum með því að skipta sjálfur miulli gíranna sjö. Bíllinn þykir mjög sparneytinn á hina dýru olíudropa, sérstaklega á hraðbrautakeyrslu sem virkar áreynslulaus.

 Multivan fæst með mismunandi innréttingum og sætum fyrir allt að níu manns. Ennfremur fæst hann í tveimur lengdum. Að aka honum er líkast fólksbíl og stýrið situr svipað gagnvart ökumanni og stýri gera í fólksbílum. Allur hefur bíllinn á sér yfirbragð vöruvöndunar enda búið að framleiða hann lengi og búið að útrýma flestum „barnasjúkdómum“ úr honum. Þyngd þessarar íburðarmestu útgáfu bílsins er 2,2 tonn.