VW skipað að innkalla dísilfólksbíla í USA

Bandarísk stjórnvöld  skipuðu Volkswagen  á föstudaginn að innkalla hátt í hálfa milljón dísilfólksbíla og fjarlægja úr þeim ólöglegan hugbúnað. Sala þessara bíla var einnig stöðvuð.

Það sem þessi ólöglegi hugbúnaður gerir er að hann skynjar þegar bílarnir eru mengunarmældir og kveikir þá á útblásturshreinsibúnaði bílanna þannig að útblástursmengunin stórminnkar rétt á meðan mælt er. Annars ekki. Mengunarvarnabúnaðurinn  á að sía sótagnir og níturoxíðsambönd úr útblæstrinum. Efnin eru talin skaðleg heilsu fólks og valda öndunarfærasjúkdómum eins og astma og fleiri öndunarfærasjúkdómum.

Umhverfisstofnun Bandaríkjanna (The Environmental Protection Agency) sakar Volkswagen um að í venjulegum akstri þegar mengunarvarnarbúnaðurinn er óvirkur, þá mengi þessir dísilbílar allt að 40 sinnum umfram lögleyfð mengunarmörk. „Við áttum á betra von en þessu frá Volkswagen,“ sagði Cynthia Giles deildarstjóri stofnunarinnar við New York Times og bætti við að VW hefði með þessu gert atlögu að almennu heilbrigði. Bílarnir sem innköllunin nær til eru VW og Audi bílar með fjögurra strokka dísilvélum, af árgerðum 2009-15. Bílarnir eru sagði mun aflmeiri og þar með skemmtilegrgi í akstri þegar slökkt er á mengunarvarnarbúnaðinum.

Prof. Dr. Martin Winterkorn forstjóri Volkswagen AG hefur sent fjölmiðlum tilkynningu vegna þessa máls. Í henni biðst hann innilega afsökunar fyrir hönd stjórnar Volkswagen og sín. Í tilkynningunni segir m.a:

„Við tökum þetta mjög alvarlega og sjálfur er ég eyðilagður yfir því að við höfum brugðist trausti viðskiptavina okkar og almennings.  Við heitum því að vinna heilshugar og af fullri hreinskilni með viðkomandi stofnunum og veita allar upplýsingar sem máli skipta. Þá höfum við hafið innanhússrannsókn á því hversvegna þetta gat gerst, því að hvorki höfum við, né ætlum okkur að láta viðgangast að farið sé á svig við innanhússreglur okkar né að þær séu brotnar.

Traust viðskiptavina okkar og almennings er okkar mikilvægasta auðlind og við hjá Volkswagen ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að endurskapa það og bæta þann skaða sem sem þetta hefur valdið. Það er forgangsmál mitt og stjórnarinnar í heild,“ segir Martin Winterkorn.