VW Taigun

Nú stendur yfir mikil bílasýning í brasilísku borginni Sao Paulo. Þar kemur einna mest á óvart nýr smájepplingur frá Volkswagen sem nefndur er Taigun. Þetta er smábíll byggður á grunnplötu VW up! Þetta er frumgerð eða hugmyndarbíll enn sem komið er. En kannski er full stórt upp í sig tekið að kalla bílinn jeppling því að ekkert er fjórhjóladrifið og verður trúlega ekki, aðeins framhjóladrif.

Botninn er sem fyrr segir sá sami og undir VW up! en lítilsháttar stækkaður á bæði breidd og lengd. Vélin er einnig í grunninn sú sama en búið að setja við hana túrbínu og fjölga hestöflunum úr 75 í 110 og vinnslunni upp í 175 Newtonmetra.

Fái þessi nýi hugmyndarbíll góðar móttökur og jákvæða athygli  er hönnun hans og þróun það vel komin á veg að hægt verður að byrja fjöldaframleiðslu á honum eftir tvö til tvö og hálft ár. Gerist það má í framhaldinu reikna með sama bíl undir merkjum Skoda og Seat einnig eins og í tilfelli VW up!. Að óreyndu má þannig búast við þessum nýja smábíl á markað innan næstu þriggja ára því að VW up! og systurbílarnir Skoda Citigo og Seat Mii hafa slegið í gegn hjá evrópskum bílakaupendum og Taigun er einskonar framþróun sömu hugmyndar og up!/Citigo/Mii og byggður á sömu tækni að mestu.

VW Taigun er einungis 985 kíló að þyngd og þannig hefur litla þriggja strokka túrbínuvélin ágætt viðbragð – 9,2 sek í hundraðið og hámarkshraða upp á 186 km á klst. Eyðslan verður í kring um 4,5 lítrar á hundraðið. Nytsemin er í fyrirrúmi og m.a. afturhurðin að farangursrýminu er tvískipt . Farangursrýmið er 280 lítrar en með aftursætið niðurfellt að fullu er það 987 lítrar.