VW Tiguan í Þýskalandi

http://www.fib.is/myndir/VW-Tiguan.jpg

Volkswagen Tiguan var söluhæsti jeppinn/jepplingurinn í heimalandinu Þýskalandi í apríl sl. Tiguan var 12,8 prósent þeirra 2.823 jeppa og jepplinga sem seldust í landinu í mánuðinum. Mest seldi smábíllinn í Þýskalandi var Smart Fortwo með hvorki meira né minna en 21 prósent markaðshlutdeild. Mercedes SLK var mest seldi sportbíllinn með 22 prósent seldra sportbíla.

VW Tiguan hefur slegið rækilega í gegn í Evrópu og er eftirspurn nú eftir bílnum það mikil að ekki hefst undan að framleiða hann og er afgreiðslufrestur á pöntunum orðinn nokkrir mánuðir.

Í flokki fólksbíla af minni meðalstærð (Golf flokknum) varð enn og aftur Volkswagen Golf/Jetta söluhæst með rúmlega 28 prósenta hlut. Mest seldi smábíllinn (B-stærð) reyndist Volkswagen Polo með 13,5 prósenta hlutdeild. Staða Volkswagen fólksbíla í heimalandinu er því mjög sterk. Staða Volkswagen er einnig sterk í stærri fólksbílum því að VW Touran seldist best í flokki stærri fjölnotabíla (sjö sæta) og náði 36 prósenta hlutdeild þar. Í flokki sendibíla varð einnig Volkswagen söluhæstur með 32 prósenta hlutdeild.

Mercedes átti söluhæstu bílana í fjórum flokkum bíla en það var í efri millliflokki þar sem Mercedes C hafði vinninginn, í lúxusflokki þar sem Mercedes S hafði vinninginn, í flokki sportbíla sem fyrr er sagt og loks í flokki minni fjölnota bíla þar sem Mercedes B varð söluhæstur. Í efri milliflokki reyndist svo Audi A6/S6 sá söluhæsti og í flokki húsbíla fór Fiat Ducato með sigur með 54,1 prósent hlutdeild. Alls voru nýskráðir í Þýskalandi í aprílmánnuði 317.960 nýir fólksbílar og léttir sendibílar.
http://www.fib.is/myndir/Bodellstatistik.jpg