VW Up! dísil tvinnbíll

Volkswagen ætlar að frumsýna nýja tengiltvinngerð – frumgerð -  smábílsins VW Up! á bílasýningunni í Tokyo sem opnuð verður föstudaginn 22. nóvember og stendur til sunnudagskvöldsins 1. des.

Bíllinn nefnist VW Twin-Up! og er meðaleyðslan í blönduðum akstri sögð vera aðeins 1,1 lítri á hundraðið.  Vélar og drifbúnaður bílsins er hið sama og í „eins lítra bílnum“ frá Volkswagen; XL1, sem frumsýndur var á Genfarbílasýningunni í mars sl.  Búnaðurinn er í stuttu máli þannig að undir vélarhlífinni er tveggja strokka dísilvél og rafmótor en aflinu frá þeim er miðlað til framhjólanna (ýmist saman eða sitt í hvoru lagi) í gegn um sjö gíra DSG gírkassa.

Í Twin-Up! er síðan líþíum rafgeymasamstæða sem geymd er undir aftursætinu. Í bílnum er einnig 33 lítra dísilolíugeymir.  Bíllinn vegur 1205 kíló tilbúinn til aksturs. Eyðslan er sem fyrr segir 1,1 lítri á hundraðið í blönduðum akstri og CO2 útblásturinn er 27 grömm á kílómetrann. Drægi bílsins á rafmagninu einu saman er allt að 50 kílómetrar. Ekki hefur enn verið ákveðið hvort eða hvenær framleiðsla hefst á VW Twin Up!  VW Up! hefur hins vegar fengist sem hreinn rafbíll frá því í september sl.

Eins lítra bíllinn VW XL1 er á hinn bóginn á leið í mjög takmarkaða framleiðslu. Af honum verða 200 eintök framleidd og ekki er hægt að segja að hann verði gefins, því að verðið pr. stykki er 111 þúsund evrur eða rúmar 18 milljónir ísl. kr. Salan hefst á nýju ári.