VW Up rafbíll í framleiðsluútgáfu

Bílasýningin í Frankfurt var opnuð blaðamönnum í morgun. Sýningin er haldin annaðhvert ár á móti Parísarsýningunni og er sú stærsta í Evrópu.

Volkswagen þjófstartaði eiginlega sýningunni því að í gærkvöldi var einskonar Volkswagen forfrumsýning fyrir um 1.900 blaðamenn á markverðustu nýjungum samsteypunnar. Á henni gaf að líta nýjar gerðir Bentley, Bugatti, Lamborghini, Skoda og Audi bíla en það var nýi smábíllinn VW Up sem mesta athygli vakti. „Loksins aftur ekta Fólksvagn,“ segir í frétt vefútgáfu þýska bílatímaritsins AutoBild um bílinn sem þarna var frumkynntur sem rafbíll – VW E-Up.

 

http://www.fib.is/myndir/VW-up-hradam.jpg

Hraðamælir og staðan á geymunum er sýnt stafrænt.

 Þessi nýi ekta Fólksvagn er væntanlegur á sölustaði Volkswagen um alla Evrópu árið 2011 og leysir þá af hólmi smábílinn VW Fox. Hann verður ekki eingöngu í boði sem rafbíll. Frá 2011 verður hann fáanlegur með sparneytnum þriggja strokka TSI bensínvélum og TDI dísilvélum og í ýmsum útfærslum en aðalútgáfan verður bíllinn í boði sem tveggja dyra smábíll og verðið er sagt verða í kringum 8.500 evrur fyrir utan skatta og gjöld. Rafmagnsútgáfan kemur svo á markað 2013

 En á forkynningunni í gærkvöldi var rafmagnsútgáfan ein til sýnis. Að stærð er VW Up eiginlega mitt í milli Smart og Fiat 500. Lengdin er 3,20 m og þyngdin 1085 kg. Rafmótorinn er 60 kW eða 82 hö. Hámarkshraðinn er 135 km á klst. og drægið er sagt 130 km á rafhleðslunni. Viðbragðið frá 0-100 er 11.3 sek. en úr kyrrstöðu í borgarhraðann 50 km á klst. er viðbragðið 3.5 sek. Rafhlöðurnar eru líþíum-jónarafhlöður, 240 kíló að þyngd sem geyma í sér 18 kílóWattstundir. Hleðslutími því sem næst tómra geyma úr venjulegum heimilistengli er 5 klst. en á hraðhleðslustöð tekur innan við klukkustund að hlaða tóma geyma upp í 80 prósent.