VW Up seinkar um hálft ár

http://www.fib.is/myndir/VW_up_profil.jpg
VW Up.

Martin Winterkorn forstjóri Volkswagen hefur staðfest að á síðustu stundu hafi áætlanir um nýja borgarbílinn VW Up verið endurskoðaðar. Í stað þess að hafa vélina afturí og drif á afturhjólunum eins og ráð var fyrir gert hafi verið ákveðið að bíllinn verði meira hefðbundinn og að vélin verði framí og drifið á framhjólunum. Breytingin þýðir að bílnum seinkar um hálft ár.  

Volkswagen hefur gert áætlanir um mikið söluátak á næstu árum og í þeim áætlunum er borgarbíllinn Up stór þáttur. Bíllinn var sýndur sem hugmyndarbíll á bílasýningunni í Frankfurt í fyrrahaust og vakti þar talsverða athygli, ekki síst fyrir tenginguna við gömlu bjölluna sem sýndi sig í mótornum í skottinu og drifinu á afturhjólum.

Tilraunaakstur á frumgerðinni hefur nú farið fram um skeið og í honum hafa komið fram ýmsir ágallar við það að hafa vélina afturí - ekki síst þeir að erfitt er að ná góðri kælingu á vélina afturí auk þess sem þyngdardreifingin þykir óheppileg. Vegna þess að bíllinn er mun þyngri að aftan en að framan hafa reynsluökumennirnir  gagnrýnt það hversu næmur bíllinn er fyrir hliðarvindi. Báðir þessir ágallar eru úr sögunni ef vélin er höfð framí. Auk þess losnar VW þar með við það að þróa nýjan véla- og gírbúnað með því að hafa vélina fram í nýja bílnum en getur notast við vélar, gírkassa og drif sem þegar eru í framleiðslu

VW up er því kominn aftur á teikniborðið hjá hönnuðum og verkfræðingum. Breytingarnar sem gera þarf á hönnuninni  þýða það að nýi smábíllinn kemur vart fram í dagsins ljós um mitt ár 2010 eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, heldur minnst hálfu ári síðar, eða á svipuðum tíma og nýju smábílarnir IQ frá Toyota og Fiat Topolino eru áætlaðir.