Wankelvélin ekki úr sögunni

Fréttir af dauða Wankelvélarinnar eru stórlega ýktar (svo vitnað sé til frægra ummæla rithöfundarins Mark Twain frá 1897) Forstjóri Mazda sagði við opnun bílasýningarinnar í Moskvu í morgun að Wankelvélarknúin rafstöð yrði í nýjum rafbíl sem væntanlegur væri á næsta ári.

Wankelvélin er kennd við Felix Wankel sem fann hana upp árið 1953. NSU var fyrsti bílaframleiðandinn til að taka hana upp á sína arma og setti hana í bíl sem hét NSU RO-80 upp úr 1960. Síðan hefur vélin verið í ýmsum bílum, einkanlega Mazda bílum, síðast í sportbílnum RX-8 sem hætt var að framleiða fyrir fáum árum.

Mazdaforstjórinn, Takashi Yamanouchi sagði í Moskvu í morgun að Wankelvélin ætti sér framtíð hjá Mazda í nýju hlutverki. Vegna þess hversu létt og fyrirferðarlítil hún er væri hún upplögð um borð í rafbílum til að knýja rafal sem sér geymunum fyrir orku og eykur þannig mjög drægi rafbílanna þegar strauminn þrýtur sem hlóðst inn á geymana frá innstungunni heimavið. Chevrolet Volt/Opel Ampera eru einmitt slíkir rafbílar en í þeim knýr hefðbundin bílvél rafalinn. Rafbílar af þessu tagi kallast EREV- bílar en skammstöfunin stendur fyrir Extended-Range Electric Vehicles.

Wankelvélar eru fljótar að svara bensíninngjöf. Þeir geta náð miklum snúningshraða en nýtni þeirra og afl er einna best við 2 þúsund snúninga á mín. Sé hægt að halda snúningshraðanum þar sem mest, þykir það mjög heppilegt fyrir afköst rafalsins sem vélin knýr.  Mjög litlum titringi stafar frá þeim, þær eru fyrirferðarlitlar og léttar. Helsti galli þeirra er sá að þær eru ekki mjög nýtnar á bensínið.

En vegna smæðarinnar er auðvelt að koma Wankelrafstöð fyrir í bílum. Menn hugsa sér að hægt sé að koma búnaðinum fyrir í hluta þess rýmis sem venjulega er ætlað eldsneytisgeyminum. Smæðin þýðir að auðvelt er að gera bíla sem þegar eru í framleiðslu úr garði sem rafbíla  án meiriháttar endurhönnunar og meðfylgjandi kostnaðar. Ýmsir bílaframleiðendur eins og Audi og Fiat hafa verið að prófa sig áfram með Wankel-rafstöðvar í bíla. Hér má sjá myndband sem skýrir hvernig Wankelvél virkar