Wuling Bingo EV fyrirferðarlítill og snotur

Það er lítið framboð af litlum og ódýrum rafbílum á markaðnum í dag en á því gætu orðið breytingar á komandi misserum. Kínverski samstarfsaðili GM, Wuling, kynnti í dag nýjan og spennandi lítinn rafbíl á bílasýningunni í Sjanghæ. Wuling er í eigu kínverska bílaframleiðandans SAIC Motor (50,1%), og GM (44%).

Bíllinn gengur undir nafninu Wuling Bingo EV. Verðið á bílnum er áætlað frá 10.000 til 14.500 bandaríkjadalir eða frá 1.5 milljónum upp í ríflega 2 milljónir króna. Um er að ræða spennandi og ódýran valkost í rafbílaflórunni. Ekki er vitað hvort eða hvenær þessi bíll verður í boði á öðrum mörkuðum en í Kína.

Fyrir þremur árum síðan hóf Wuling sölu á smábílnum Hongguang Mini EV á Kínamarkaði en sá bíll er minni og ódýrari en Bingo. Þegar er búið að selja um 1,1 milljón bíla af Mini EV sem bendir til þess að að bíllinn sé vel nothæfur.

Í boði verða fimm mismunandi gerðir og tvær drifrafhlöðustærðir með uppgefna akstursdrægni frá 203 til 333 kílómetra. Bíllinn er framdrifinn með einn rafmótor fyfir framöxli. Um er að ræða 5 dyra hlaðbak með mjúkum brúnum og bogadregnu yfirborði. Fjórir megin litir verða á yfirbyggingunni og í boðir verða einnig tvílitir líkt og bíllinn á myndinni með þessari frétt.

Það eru líka mismunandi vélavalkostir, 30 kW og 50 kW. Drifrafhlöðurnar verða 17,3 kWh eða 31,9 kWh. Hraðhleðsla minni rafhlöðunnar er uppgefin 35 mínútur frá 30 til 80%. Léttasta útgáfan verður undir 1.000 kg.

Wuling Bingo er 395x171x158 sentimetrar og farangursrýmið getur orðið 790 lítrar þegar búið er að leggja niður aftursætin.