Yamaha R-car

Yamaha mótorhjólaframleiðandinn í Japan fæst við ýmislegt fleira en að skrúfa saman mótorhjól fyrir bæði keppnisfólk og almenna borgara en hefur hingað til ekki beinlínis verið stórtækt í því að hanna og byggja bíla. Þó er rétt að rifja það upp að Yamaha kom að hönnun og þróun Toyota 2000GT á sjöunda áratuginum.

En Yamaha hannar reyndar líka og þróar vélar í bíla og V8 vélarnar í t.d. Volvo XC90 og S80 eru frá Yamaha. Og nú hefur bílahönnuður að nafni Albert Roselló hannað ofursportbíl og byggir hann tæknilega á hlutum frá Yamaha, einkum þó hlutum og búnaði sem tengjast mótorhjólum. Hönnuðurinn lætur liggja að því að Yamaha geti farið út í það að setja bilinn í framleiðslu. Það sé nærtækt því að bíllinn sé ofurbíll með mótorhjólssál. Hann verði einungis 1.100 kíló að þyngd en með 900 hestafla vél.