Yfir 97% erlendra ferðamanna sem nýttu sér bílaleigubíla notuðu bílbelti

Í skýrslu um Akstur og öryggi erlendra ferðamanna 2016 kemur fram að 97,1% þeirra sem notuðu bílaleigubíla kváðust alltaf hafa notað bílbelti á ferð sinni um Ísland , 1,7% sögðust hafa notað þau oftast, 0,7% stundum en 0,5% aldrei.

Um 91% þeirra sem notuðu áætlunarbíla og 81% þeirra sem notuðu hópferðabíla sögðust alltaf hafa notað bílbelti í ferðinni.

5% þeirra sem leigðu bíl kváðust mikið hafa ekið utan vega (off road), 36% lítið en 69% ekkert.  Af þeim sem nýttu sér bílaleigubíla óku 25% mikið á malarvegum í Íslandsferðinni, 64% lítið en 11% ekkert.

Af þeim sem óku bílaleigubílum kváðu 83% sig vera reynda ökumenn og 15% fremur reynda. Aðeins 1,5% sögðust vera fremur óreyndir og 0,5% að þeir væru byrjendur.  Um 55% bílstjóranna voru vanir akstri á malarvegum en 45% ekki.

Í könnuninni 2016 var spurt um 10 þætti varðandi Íslenska vegakerfið og umferðarmenningu á Íslandi, hvort þeir væru betri, eins eða verri en fólk hafið vænst. Á bilinu 50-68% töldu ástand þáttanna eins og þeir bjuggust við.