Yfir helmingur sænskra ökumanna vill bann við notkun síma undir stýri

 Sænskir ökumenn koma einna verst út í Evrópu þegar notkun á farsíma undir stýri er skoðuð. Nýleg könnun leiddi í ljós að fjórir af hverjum tíu ökumönnum í Svíþjóð nota símann í akstri.

Um 31% ökumanna sem tóku þátt í könnunni telja það varasamt og stefna öryggi í hættu að nota símann undir stýri. Um 37% ökumanna voru að senda textaskilaboð og um 16% voru inn á samfélagsmiðlum.

Aldurshópurinn 18-36 ára stendur sig verst í þessum efnum en um 56% þeirra nota símann undir stýri. Yfir helmingur ökumanna sem tók þátt í könnunni vill herða viðurlög við notkun á síma í akstri og svipaður fjöldi vill algjört bann við notkun á síma í akstri.

Frá og með 1. mars tóku í gildi nýjar og hertar reglur við notkun farsíma undir stýri á Englandi, Skotlandi og Wales. Ökumenn í þessum löndum, sem ekki nýta sér handfrjálsan búnað við notkun farsíma, standa nú frammi fyrir mun harðari viðurlögum en áður.

Nýju lögin miða að því að ökumenn noti ekki farsíma án handfrjálsbúnaðar meðan á akstri stendur. Í könnun sem gerð var opinber fyrir skemmstu viðurkenndu 11 milljónir ökumanna að hafa talað í síma á síðustu tólf mánuðum.