Yfir þriðjungur með rangan loftþrýsting í dekkjunum

http://www.fib.is/myndir/Hugsadu-litil.jpg

38 prósent bíla í umferð í Evrópu eru með rangan loftþrýsting í dekkjunum ef marka má niðurstöður FIA, alþjóðasamtaka bifreiðaeigendafélaga. Nokkur bifreiðaeigendafélög innan FIA hafa kannað þessi mál hvert um sig en FIA síðan unnið úr upplýsingunum og þetta er hin dapurlega niðurstaða.

Tölfræðin sýnir að áttundi hver ökumaður ekur um með of lítið loft í hjólbörðunum. Að aka með of lítið loft í dekkjunum rýrir aksturs- og þó sérstaklega hemlunareiginleika bílsins og eykur stórlega hættu á slysum og óhöppum. En þegar of lint er í dekkjunum verður núningsmótstaða þeirra meiri og bíllinn því þyngri á sér og eyðir meiru en þegar þess er gætt að hafa loftþrýstinginn réttan.

Ef marka má niðurstöður FIA þá þýða þær að daglega séu 40 milljón bílar á ferðinni með of lítið loft í hjólbörðunum. Það þýðir að þeir eru að eyða um 5,3 milljörðum lítra af eldsneyti að óþörfu og þar með að brenna upp að nauðsynjalausu fjármunum sem svara til 2.400 milljarða íslenskra króna.

FIA gekkst fyrir alþjóðlegu átaki í samvinnu við dekkjaframleiðandann Bridgestone árið 2005 undir slagorðinu Hugsaðu áður en þú ekur, eða Think Before You Drive. Gefinn var út bæklingur undir sama nafni sem félögin innan FIA gáfu út á hvert sínu tungumáli. Bæklingnum á íslensku ásamt handhægum lofþrýstings- og dekkjaslitsmæli frá Bridgestone var dreift hér á Íslandi inn á hvert heimili í landinu auk þess sem hann lá frammi á bensínstöðvum og hjá lögregluembættum um allt land um verslunarmannahelgina þetta sama ár.

Hér fyrir neðan er mynd af þeirri opnu bæklingsins sem fjallaði um hjólbarðana undir bílnum.
http://www.fib.is/myndir/Hugsadu-1.jpg