Yfirvöld taka á röngum upplýsingum um frostþol

Neytendastofa hefur staðfest við FÍB að stofnunin muni fylgja eftir niðurstöðum frostþolskrannsóknar á sjö tegundum rúðuvökva sem FÍB fékk gerða í febrúar/mars sl. Rannsóknin leiddi í ljós að uppgefið frostþol á umbúðum margra rúðuvökvanna sem á markaði voru hér á landi var í mörgum tilfellum alls ekki í samræmi við innihaldslýsingu á umbúðum  vörunnar, heldur minna og í nokkrum tilfellum verulega minna.

Niðurstaða rannsóknastofunnar Fjölvers sem vann rannsóknina fyrir FÍB var sú  að af þessum sjö tegundumrúðuvökva reyndist ein standast uppgefið frostþol og ein vera frostþolnari en innihaldslýsingin gaf til kynna. Fimm reyndust hins vegar hafa minna frostþol sem nam frá tveimur til 11 gráðum.

Það sem skiptir höfuðmáli í sambandi við frostþol rúðuvökva er það við hvaða hitasstig rúðuvökvinn kristallast því eftir að það gerist er hann ónothæfur.  Rúðuvökvi er öryggisvara og FÍB telur það slæma viðskiptahætti að afvegaleiða neytendur með röngum og misvísandi innihaldslýsingum afþ þessu tagi.  Almennur neytandi ályktar að frostþol rúðuvökvans sé í samræmi við það sem stendur á umbúðunum. Ef þar stendur stórum og skýrum stöfum að frostþol vökvans sé -21 gráða en reynist síðan vera -10 gráður, svo dæmi sé tekið, þá er verið að leiða neytandann á alvarlegar villigötur.

Það er því fagnaðarefni að Neytendastofa ætlar að taka á þessu mikilvæga neytendamáli.