Youngman í Kína vill eignast Saab

Stofnandi og eigandi kínverska bílafyrirtækisins Youngman, milljarðamæringurinn Pang Qingnian, segir í einkaviðtali við Svenska Dagbladet að hann vilji mikið á sig leggja til að eignast Saab. Hann hefur nú hækkað áður framkomið tilboð í þrotabúið og segist tilbúinn til að leggja rúma 220 milljarða ísl. kr. í þróun nýrra gerða, verði tilboði hans tekið. Hann gefur ekki upp hvaða verð hann er nú tilbúinn til að greiða fyrir þrotabú Saab en Svenska Dagbladet telur það vera um 37 milljarðar ísl. kr.

Pang Qingnian segir að vörumerkið Saab sé mjög mikils virði og eignist hann það, sé ætlan hans að koma framleiðslunni í gang á ný sem og vöruþróun og rannsóknum. Allt muni þetta áfram verða í Trollhättan fái hann að ráða, enda sé það forsenda trúverðugleika Saab að svo verði.

Fram kemur í viðtalinu, sem hvergi hefur komið fram áður, að Youngman hafi lengi haft áhuga fyrir Saab og hafi árið 2008 leitað eftir því hjá General Motors, þáverandi eiganda Saab, að stofna dótturfélag sem myndi markaðssetja Saab bíla í Kína. Stjórn GM hafnaði þessu strax og aftur árið 2009 þegar Saab var komið í söluferli sem lyktaði með því að Victor Muller og félag hans Spyker Cars eignaðist Saab.

Youngman leitaði svo enn hófanna með að eignast Saab allt, eða þá að gerast meðeigandi Victors Mullers að fyrirtækinu, eins og sagt hefur verið frá á þessum vettvangi. Allt strandaði það þó á andstöðu GM sem vildi alls ekki að fjölmörg einkaleyfi Saab lentu í Kínverjahöndum. Í áðurnefndu einkaviðtali Svenska Dagbladet við Pang Qingnian segir hann að vel sé hægt komast hjá því með því að hefja framleiðslu á Saab 9-3 með dísilvél, þar sem einkaleyfi GM tengd Saab 9-3 varði fyrst og fremst bensínvélarnar, sem eru frá GM.