"Afgreiðsla BL ehf. á aðgangsbeiðni ekki í samræmi við lög"

Nýverið tók Persónuvernd fyrir kvörtun Autoledger ehf. rekstraraðila Þjónustubókarinnar gegn bifreiðaumboðinu BL ehf. Kvörtunarefnið sneri að höfnun BL um afhendingu á þjónustu- og viðgerðasögu 878 bifreiða sem Autoledger óskaði eftir á grundvelli umboða viðkomandi eigenda.

Niðurstaða Persónuverndar var sú að með því að hafna Autoledger um aðgang að viðkomandi gögnum þá hafi BL ehf. brotið gegn lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og í kjölfarið var BL ehf. veitt áminning. Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér.

Autoledger ehf. er eigandi og rekstraraðili Þjónustubókarinnar sem er ný rafræn lausn á netinu þar sem bifreiðareigendur geta kallað fram allar helstu upplýsingar um viðgerðar- og þjónustusögu bílsins ásamt öllum helstu gögnum sem eru skráðar hjá Samgöngustofu. Öllum gögnum er síðan safnað saman og útbúin auðlæsileg skýrsla þar sem eigandi og mögulegir seljendur geta kynnt sér sögu bílsins á einfaldan hátt. Nánar um Þjónustubókina. 

Til þess að sækja viðkomandi upplýsingar þarf notandi að gefa Þjónustubókinni heimild „umboð“ svo hægt sé að óska eftir umræddum gögnum. Þetta mældist vel fyrir og voru tæplega 900 bifreiðareigendur sem tóku þátt í fyrstu prófunum. Síðar kom í ljós að BL og fleiri bifreiðaumboð neituðu að afhenda viðkomandi gögn þrátt fyrir formlegt umboð eigenda. Í kjölfarið kvartaði Autoledger ehf. til persónuverndar vegna brots á persónuverndarlögum.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Afgreiðsla BL ehf. á aðgangsbeiðni Autoledger ehf., f.h. [A], samrýmdist ekki ákvæðum laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. reglugerð (ESB) 2016/679.

Með vísan til 2. tölul. 2. mgr. 42. gr. laga nr. 90/2018 og b-liðar 2. mgr. 58. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679 er BL ehf. veitt áminning fyrir brot gegn ákvæðum laga nr. 90/2018 og reglugerðar (ESB) 2016/679.

Lagt er fyrir BL ehf. að taka aðgangsbeiðni Autoledger ehf., f.h. [A], til efnislegrar afgreiðslu. Skal staðfesting á því að farið hafi verið að þessum fyrirmælum berast Persónuvernd eigi síðar en 28. nóvember 2022.