Álagning á bensín og dísilolíu umtalsvert hærri hér á landi

Í nýlegri úttekt Samkeppniseftirlitsins á eldsneytismarkaðnum hér á landi kemur í ljós að álagning á bensín og dísilolíu er umtalsvert hærri hér á landi en í Bretlandi og Írlandi. Costco virðist ekki veita eins mikla samkeppni og áður. Í úttektinni kemur fram að hlutur olíufélags af hverjum seldum lítra hefur rúmlega tvöfaldast frá því í maí 2022. Hann hafi farið úr röskum 30 krónum í meira en 70 krónur.

Í greiningu Samkeppniseftirlitsins kemur fram að skýrar vísbendingar eru um að aukin samkeppni með innkomu Costco, og í kjölfarið viðbrögð Atlantsolíu og annarra olíufélaga, hafi haft áhrif til lækkunar á álagningu á bensíni. Þar virðist landsbyggðin, að Akureyri undanskilinni, hins vegar hafa setið eftir og litlar breytingar á álagningu í sölu dísilolíu vekja upp spurningar um hvort skortur sé á samkeppni þar.

Þá vekur athygli að framlegð á dagvörumarkaði hefur hækkað um tæplega þriðjung á árabilinu 2017-2021 auk þess sem framlegð á byggingavörumarkaði hefur hækkað í nokkrum mikilvægum vöruflokkum á sl. árum. Kallar Samkeppniseftirlitið eftir umræðu um orsakir þessa.

  • Reiknað smásöluálag (dæluverð að frádregnu innkaupsverði og opinberum gjöldum) á bensíni hefur farið lækkandi frá miðju ári 2018 á höfuðborgarsvæðinu og frá miðju ári 2020 á Akureyri. Smásöluálag á öðrum landfræðilegum mörkuðum hefur haldist öllu stöðugra.
  • Reiknað smásöluálag á dísilolíu hélst nokkuð stöðugt á tímabilinu, en lækkaði á Akureyri um mitt ár 2020.
  • Samkvæmt bensínvakt Kjarnans tvöfaldaðist hlutur olíufélaganna frá maí og fram í september, lækkaði fram í nóvember en tvöfaldaðist milli nóvember um desember, eða úr um 50 kr/ltr í 70 kr/ltr.
  • Þá hefur FÍB gagnrýnt verðlagningu hér á landi en félagið telur smásöluverð ekki breytast í takt við heimsmarkaðsverð og hefur kallað eftir inngripum stjórnvalda.

 Greiningin dregur ekki fram skýrar vísbendingar um brot á samkeppnislögum sem ryðja þurfi úr vegi. Að mati Samkeppniseftirlitsins er hins vegar hægt að draga eftirfarandi ályktanir af niðurstöðunum hér að framan:

  • Verðlagning og álagning á dagvöru- og eldsneytismarkaði er há í alþjóðlegum samanburði sem vekur upp spurningar um hvort samkeppnislegt aðhald á þeim mörkuðum sé nægilegt.