A.m.k. 74 dauðaslys vegna gallaðs kveikiláss í GM bílum

Reuters fréttastofan hefur kannað gögn bandarísku slysarannsóknastofnunarinna FARS yfir dauðaslys sem orðið hafa í bílum frá General Motors sem rekja má til mjög umtalaðs galla í kveikilás (sviss) bílanna. Rannsóknablaðamenn Reuters rannsökuðu gögnin út frá sömu aðferðafræði og starfsmenn GM hafa sjálfir unnið eftir við samskonar rannsóknir. Niðurstöður eru gerólíkar: Starfsmenn GM töldu að rekja mætti 13 dauðsföll til gallans en blaðamenn Reuters telja þau vera minnst 74.

 

Gallinn í kveikilásunum lýsir sér þannig að skyndilega drepst á bílunum í akstri. Við það verða loftpúðar óvirkir og hemlar verða nánast óvirkir og stýrið mjög þungt. Ökumenn missa við það stjórn á bílunum og árekstur verður þar sem ökumaður og/eða framsætisfarþegi týna lífi. Fram hefur komið í fréttum undanfarnar vikur að forsvarsmenn GM létu árum saman undir höfuð leggjast að innkalla bílana þótt þeir vissu af þessum galla strax árið 2001. Eftir að málið komst í hámæli í byrjun þessa árs hafa 2,6 milljón bílar verið innkallaðir vegna gallans.

 

Blaðamenn Reuters báru jafnframt saman dauðaslysatíðni GM-bílanna Chevrolet Cobalt og Saturn Ion við dauðaslysatíðni sambærilegu bílanna Ford Focus, Honda Civic og Toyota Corolla. Niðurstöður eru þær að dauðaslys af þessu tagi eru nærri sex sinnum algengari í Saturn Ion en í Toyota Corola. Dauðaslys í Ion reyndust 5,9 á hverja 100 þúsund selda bíla, í Chevrolet Cobalt 4,1, 2,9 í Ford Focus, 1,6 í Honda Civis og 1,0 í Toyota Corolla. Sjá nánar í frétt Reuters.