Fréttir

Húsvíkingar fá hraðhleðslu

ON hefur tekið í notkun nýja hlöðu með hraðhleðslu fyrir rafbíla á lóð Orkunnar á Húsavík. Það var Árni Sigurbjarnarson, einn af stofnendum hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar, sem fyrstur hlóð rafbíl í nýju hlöðunni, forláta Teslu. Hraðhleðslan mun auðvelda Árna að hlaða í heimabyggð en næstu hlöður ON eru á Akureyri og Mývatni.

Ölfusárbrú lokuð í viku

Vegna viðgerða verður brúin yfir Ölfusá lokuð í viku og verður brúin alveg lokuð frá og með kl. 20 þann 13. ágúst til 20 ágúst. Nýtt brúargólf verður steypt um nóttina, steypan er nokkra sólarhringa að harðna og áætlað er að hægt verði að hleypa aftur umferð á brúna þann 20. ágúst.

Ólöglegar vélabreytingar á kostnað umhverfisins

Undanfarin misseri hafa fyrirtæki hér á landi boðið bíleigendum upp á að endurforrita vélartölvur ökutækja og er sagt að það skili meira afli og minni eldsneytiseyðslu. Samkvæmt heimasíðum og facebook-síðum Bílaforritunar og Kraftkorta, fyrirtækja sem bjóða þessa þjónustu, er m.a. boðið upp á þann valkost að taka mengunarvarnarbúnað bílaframleiðenda úr sambandi. Þarna er sérstaklega fjallað um EGR-ventla, sótagnasíur og AD-blue hreinsibúnað. Aftenging þessa búnaðar frá framleiðanda eykur losun heilsuspillandi mengandi efna og skaðlegra sótagna frá bílum.

Samdráttur í fjölda nýskráninga fólks- og sendibíla

Samdráttur í fjölda nýskráninga fólks- og sendibíla fyrstu sjö mánuði ársins hér á landi nam rúmlega 12%. Fjöldi nýskráninga í þessum flokki var 14.741 bíll en á sama tímabili 2017 seldust alls 16.794 bifreiðar. Munar mestu í þessum samanburði um nýja bíla sem bílaleigur eru að fá til sín en þar nemur samdrátturinn um 19%. Þetta kemur fram í tölum sem Bílgreinasambandið sendi frá sér.

Tekjur ríkissjóðs af innflutningi nýrra bíla námu 10,1 milljarði

Tekjur ríkissjóðs af innflutningi nýrra bíla halda áfram að aukast. Árið 2017 námu tekjurnar 10,1 milljarði kr. eða um 21% aukningu á milli ára. Tekjuaukningin er fyrst og fremst tilkomin vegna aukins fjölda innfluttra bifreiða á árinu eftir því sem fram kemur í Árbók bílgreina 2018.

BMW innkallar bíla sökum vélargalla

Þýski bílaframleiðandinn BMW hefur orðið að grípa til þess ráðs að innkalla á fjórða hundruð þúsund bifreiðar sökum vélargalla sem fram hefur komið í dísil bifreiðum framleiðandans í S-Kóreu.

Tesla íhugar að fara af hlutabréfamarkaði

Elon Musk, enn af stofnendum Tesla, er alvarlega að hugsa um að taka fyrirtækið sitt af hlutabréfamarkaði. Í tilkynningu frá Tesla kemur fram að endanlega ákvörðun í málinu verði tekin á næstunni.

Bensínbílar tveir þriðju allra ökutækja í landinu

Heildarfjöldi skráðra ökutækja á Íslandi í árslok 2017 var 366.888 en þar af voru 294.482 ökutæki í umferð á þeim tíma. Að meðaltali voru því fleiri en eitt ökutæki skráð á hvern Íslending 2017.

Hekla innkallar Mitsubishi ASX

Neytendastofu hefur borist tilkynning frá Heklu hf. að innkalla þurfi Mitsubishi ASX bifreiðar af árgerðinni 2013-2015. Ástæða innköllunar er að vatn getur komist í kúluliði á þurrkunum og valdið tæringu. Þurrkur geta orðið óvirkar af þessum sökum. Viðgerðin felst í að skipta þarf um þurrkuarma.

Þjóðvegi eitt um Holtsveg, vestan Lirkjubæjarklausturs, hefur verið lokað

Þjóðvegi eitt um Holtsveg, vestan Kirkjubæjarklausturs, hefur verið lokað. Vatn úr Skaftárhlaupi flæðir þar yfir og af þeim sökum er umferð beint um Meðallandsveg. Lögreglan og Vegagerð hafa íhugað að rjúfa veginn til að hleypa vatninu í gegn en beðið verður átekta með þá ákvörðun.