Audi með sjálfbært bensín

Audi bílaframleiðandinn í Þýskalandi hefur um nokkurt stundað tilraunir og rannsóknir á framleiðslu sjálfbærs bílaeldsneytis í samvinnu við tæknifyrirtæki í efnaiðnaði. (Sjá frétt hér). Nú hefur náðst sá árangur að til er orðin tækni til að framleiða sjálfbært og umhverfismilt bensín (e-bensín).

Engin jarðolía kemur við sögu í framleiðslu þessa bensíns og í því er hvorki brennistenn né benzen sem á sínum tíma leysti blý af hólmi í bensíni. Oktantala nýja e-bensínsins er 100 sem gerir það heppilegt til nota á mjög háþrýstar og hraðgengar bensínvélar. Ennfremur er bruni þess mjög hreinn. Audi hefur unnið að þróun þessa bensíns í samvinnu við þýsk-bandarískt fyrirtæki sem heitir Global Bioenergies. Byrjað er á að reisa verksmiðjuí Leuna í Þýskalandi til að framleiða e-bensínið í allstórum stíl.  Áætlað er að framleiðslan hefjist strax á næsta ári.

– Það hefur tekist að finna hagkvæma aðferð til að framleiða Audi e-bensín, sem er mikill áfangi, segir Reiner Mangold sjálfbærniþróunar hjá Audi við þýska fjölmiðla. Hann segir að fyrsti skammturinn af Audi e-bensíni hafi verið búinn til með því að nota isobutylen sem framleitt var úr lífmassa í franskri verksmiðju. Isobutylen er m.a. notað sem íblöndunarefni í jarðefnaeldsneyti. Þessu efni; Isobutylen, var þvínæst breytt í isooktangas sem nýta mætti beint sem eldsneyti fyrir bensínvélar. En lokastigið var þó það að blanda þessu gasi saman við ýmis önnur efni og koma síðan blöndunni í fljótandi form á ný, og þar með var nýja e-bensínið orðið til.

Með tímanum hyggjast Audi og Global Bioenergies þróa framleiðsluaðferðirnar þannig að ekki sé þörf á lífmassa. Nóg verði að hafa efnafræðina á hreinu og nýta einungis vatn, vetni, koldíoxíð og sólarljós við bensínframleiðsluna. Marc Delcourt forstjóri Global Bioenergies segir að nýja e-bensínið marki söguleg tímamót. –Þetta er upphafið að nýjum sjálfstæðum og óháðum umhverfismildum tækni- og orkuiðnaði sem smá saman mun leysa af hólmi jarðefnaeldsneytið.  

Audi stendur að fleiri framtíðarverkefnum á sviði sjálfbærs og hreins eldsneytis. Ekki er langt síðan umtalsverður árangur náðist í því að framleiða jarðolíufría og mjög hreina, nothæfa e-dísilolíu. Framleiðsla er þegar hafin á efnafræðilega tilbúnu Audi-metangasi sem framleitt er með sólarorkurafmagni, vatni og koldíoxíði.