Hætt við bílastæðagjöld

Eins og við greindum frá í sl. viku ætlaði danska náttúruverndarstofnunin að hefja innheimtu stöðugjalda á bílastæðum við 19 af vinsælustu náttúruskoðunarsvæðum í Danmörku. Þetta var tilkynnt þann 1. Desember sl. og að búið væri að fela einkafyrirtæki að annast innheimtu stöðugjaldanna og sekta þá sem ekki greiddu eða létu stöðutímann renna út. FDM, systurfélag FÍB mótmælti þessum fyrirætlunum og lýsti þær ólöglegar.

Fréttavefur FDM greinir frá því í morgun að danski umhverfisráðherrann Kirsten Brosbøl hafi nú blásið þessar fyrirætlanir af. Ekkert verði af þessari innheimtu. Bílastæðin 19 sem öll eru fjarri byggð, verða áfram gjaldfrjáls. Í fréttatilkynningu sem ráðherrann sendi út í morgun segir að Það hafi verið skilyrði af hennar hálfu að gjaldtakan skerti í engu aðgang almennings að náttúrunni. Nú hafi það sýnt sig að á sumum þessara bílastæða eru engin önnur og gjaldfrjáls bílastæði að finna í grennd. Því muni gjaldheimtan skerða aðgengi að þeim stöðum og þessvegna hafi hún ákveðið að blása innheimtumálið af.

Ráðherrann minnist ekkert á hvort innheimtan sé á skjön við lög eins og FDM hefur bent á. FDM fagnar því að hætt hafi verið við að innheimta stöðugjöld við umrædd 19 náttúrusvæði en ætlar að halda málinu til streitu. Gjaldskylda hefur þegar verið tekin upp við Dyrehaven (skógur og dádýragarður) í Klampenborg norður af Kaupmannahöfn og við Møns Klint og vill FDM láta á það reyna hvort gjaldtakan þar standist lög.