Hyundai og Kia gert að greiða ofursekt í USA

Hyundai og Kia (sami framleiðandi) hafa fengið óþyrmilega á baukinn í Bandaríkjunum fyrir að hafa skilað inn fölskum tölum um eyðslu bíla sinna og útblástur við gerðarviðurkenningu og síðan á grunni þeirra markaðssett bílana sem þá sparneytnustu í sínum stærðarflokkum. Hyundai og Kia hafa nú gengist undir samkomulag eða dómssátt um að greiða 350 milljón dollara gegn því að málssókn verði felld niður. 100 milljón dollarar af heildarupphæðinni er bein sektarupphæð en afgangurinn fer til að kosta ýmsar aðgerðir, m.a. í umhverfis- og loftslagsmálum.

Þeir eru þó fleiri bílaframleiðendurnir sem hafa verið neyddir til að endurskoða og breyta opinberum eyðslutölum einstakra gerða bíla sinna á bandaríska bílamarkaðinum að undanförnu. En framferði Hyundai/Kia þykir hafa verið sérstakt að því leyti hversu markvissar og meðvitaðar falsanirnar voru. Eyðslutölurnar voru einfaldlega langt frá því að standast í daglegri notkun. Hér á vefnum hefur áður verið greint frá eyðslutölufölsunum, m.a. hér.

Undanfarin tvö ár hafa bandaríska dómsmálaráðuneytið og umhverfisstofnunin rýnt í eyðslutölur Hyundai og Kia bíla. Rannsóknin leiddi í ljós verulegt misræmi milli uppgefinnar eyðslu og eyðslu í raunveruleikanum. Fyrir bílaframleiðandann voru þá tveir kostir í boði; að sæta saksókn fyrir dómstólum fyrir falsanir eða greiða umrædda dómssátt. Frá þessu er greint í Automotive News.

„Það er einfaldlega ekki hægt að líða framferði eins og þetta og dómsmálaráðuneytið mun aldrei hvika frá þeirri stefnu að grípa til aðgerða gegn hverju því fyrirtæki sem gerist sekt um eitthvað þessu líkt,“ segir í yfirlýsingu frá  Eric Holder dómsmálaráðherra. (sjá mynd).

Í heild fjallaði málið um alls 1,2 milljónir bíla sem nú eru í umferð í Bandaríkjunum en uppgefnar og rækilega auglýstar og of lágar eyðslutölur þeirra, voru marg auglýstar í því skyni að auka söluna að sögn forstjóra bandarísku umhverfisstofnunarinnar EPA. Forstjórinn; Gina McCarthy (t.v. á mynd)  segir að framferði af þessu tagi sé bæði óréttlátt gagnvart neytendum og samfélagi en einnig ólöglegt. Verkfræðingar og tæknimenn Hyundai og Kia hafi gagnstætt öðrum bílaframeiðendum markvisst og kerfisbundið valið hagstæðustu finnanlegu eyðslumælingatölur til að nota í auglýsingaherferðum þar sem fullyrt var að bílarnir væru þeir sparneytnustu í sínum flokkum.

Hyundai/Kia bílaframleiðandinn hefur þegar greitt flestum eigenda þeirra 1,2 milljón bíla sem um ræðir skaðabætur sem grundvallast á mismuni raunverulegrar eyðslu bílanna og uppgefnu fölsku talnanna. Jafnframt hefur eyðslumæliaðferðunum verið breytt.