Næst mest CO2 í Danmörku

Koltvísýringslosun frá bílaumferð á hvern íbúa er mest á Íslandi og næst mest í Danmörku þegar borin eru saman Svíþjóð, Danmörk, Finnland, Noregur og Ísland að þessu leyti. Þetta kemur fram í skýrslu Vegagerðarinnar þar sem borin er saman umhverfisstjórnun vega- og gatnagerðar á Norðurlöndunum. Á óvart kemur hversu CO2 útblástur frá bílaumferð er mikill í Danmörku.

Eins og fram kemur í eldri frétt um þessa skýrslu hér á vefnum þá er Ísland ekki mesta bílalandið af þessum löndum með sína 640 bíla á hverja þúsund íbúa, heldur það næst mesta. Efstir eru Finnar með 650 bíla á hverja þúsund íbúa en neðstir eru Danir með einungis 389 bíla á hverja þúsund landsmenn.

Vart þarf að koma á óvart að mestur CO2 útblástur pr. íbúa sé mestur á Íslandi. Landið er stórt og mjög strjálbýlt og meira að segja þéttbýlið á Suðvesturhorninu er það gisið að það eru áhöld um hvort það yfirleitt getur kallast þéttbýli. Akstursleiðir eru því yfirleitt langar og almannasamgöngur rísa vart undir nafni sem valkostur við einkabílinn. Bíllinn er mjög nauðsynlegt heimilistæki á Íslandi og samfélagið hefur aðlagað sig að bílnum.

Allt annað er uppi á teningnum í Danmörku. Danmörk er minnsta bílalandið í samanburðinum. Landið er lítið og þéttbýlt. Þar eru afbragðs aðstæður til hjólreiða og hjólreiðar því raunverulegur valkostur í samgöngum. Net almannasamgangna (lestar og strætisvagnar) er þéttriðið og með því besta sem þekkist. Því kemur það á óvart að Danmörk með sína þéttu byggð, litlu bílanotkun, fáu bíla og bestu almannasamgöngurnar skuli vera með næst mestu CO2 losunina eða 2,3 tonn á hvern íbúa. Ekki verður málið einfaldara þegar það blasir við að heimilisbílar Dana eru að stórum hluta smábílar. Bílafloti Íslendinga er að meginhluta mun stærri bílar, eins og jeppar og jepplingar og meðalaldur flotans auk þess talsvert hár og bílarnir því eyðslufrekari en nýrri bílar, sem skýrir vissulega ýmislegt.

En skýringar á þessum mikla útblæstri hjá Dönum liggja hreint ekki í augum uppi. Getur það verið að almannasamgöngutækin hjá Dönum mengi svona gríðarlega mikið?

 CO2 útblástur frá  bílaumferð pr. íbúa

1. Ísland 2,4 tonn
2. Danmörk 2,3 tonn
3. Finnland 2,1 tonn
4. Svíþjóð 2,0 tonn
5. Noregur 2,0 tonn