Skattfrelsi í 10 ár

Þýska ríkisstjórnin hefur ákveðið að framlengja fullt skattfrelsi á rafbíla og vetnisrafbíla um fimm ár í viðbót við þau fimm sem renna út 2015. Lagt hefur verið fram stjórnarfrumvarp um þetta í þinginu og frumkvæðið að því á Angela Merkel kanslari. Hún vill ýta undir stórfjölgun rafbíla í sambandsríkinu. Markmið hennar er að raf- og vetnisrafbílar verði orðnir milljón talsins innan næstu átta ára.

Undanfarin fimm ár hafa rafbílar og vetnisrafbílar verið alveg skattfrjálsir í Þýskalandi til að örva sölu þeirra. Það hefur hins vegar lítt dugað því almennir bílakaupendur hafa verið tregir til að fá sér rafbíla og kemur einkum tvennt til: Kaupendur telja drægi þeirra of skammt og notagildi þeirra því takmarkað. Auk þess hafa þeir verið dýrir þrátt fyrir skattfrelsið og óvissa um endingu rafgeyma.

Angela Merkel kanslari Þýskalands hefur mikla trú á rafbílunum og hefur lýst því yfir að hún vilji að Þýskalandi verði forysturíki heimsins í því að rafvæða bifreiðasamgöngur, enda þótt hún segist gera sér grein fyrir því að það verði ekkert einfalt mál.

Rannsóknir fara nú víða fram í rafgeymatækni fyrir bíla og bendir margt til þess að loksins séu í sjónmáli rafgeymar sem verði ódýrari og endingarbetri en jafnframt margfalt orkumeiri en núverandi líþíumgeymar í rafbílum. Ennfremur hafa orðið miklar framfarir síðustu fá ár í tækni til sjálfbærrar raforkuframleiðslu. Margt bendir því til að rafbílar geti orðið raunverulegur valkostur við bensín og dísilbíla innan tiltölulega fárra ára.