Þýski lúxusinn laut í gras fyrir alþýðuvagninum

Lúxsusbíllinn Mercedes-Benz EQS háði mjög jafna keppni við uppáhaldsbíl almúgans; Tesla Model 3 í drægnikeppni 31 rafbíls í Noregi um hver kæmist lengst á rafhleðslunni. Þetta kemur fram í vetrarrafbílarannsókn Félags norskra bifreiðaeigenda, NAF, og FÍB sem gerð var á dögunum.

Svo fór að lokum að Teslan hafði sigur og hafði komist 521 kílómetra þegar hann stöðvaðist en Benzinn 513 km. Enginn bílanna í prófuninni komst nær uppgefnum drægnitölum samkvæmt WLTP staðlinum en svo, að upp á það vantað meir en 10 prósent að meðaltali.

Hið norska systurfélag FÍB - NAF og félagstímaritið Motor stóðu að þessari vetrarprófun á rafbílum – þeirri viðamestu í heiminum hingað til og komu fleiri samtök að viðburðinum, þeirra á meðal er FÍB eins og áður kom fram. NAF og Motor hafa um árabil gert vandaðar prófanir og úttektir á rafbílum bæði að sumar- og vetrarlagi.

 Aðstæður í þessari nýju vetrarkönnun voru í stórum dráttum þær að veðurfar og færð var breytilegt, yfirborð veganna var ýmist autt, þurrt, blautt, snævi, eða ísi þakið. Hitafar á meðan prófunum stóð var þannig að sjaldan var það sem kallast brunagaddur eða hörkufrost heldur lá lofthitinn oftast á bilinu frá fáeinum plúsgráðum niður í ca. tíu gráðu frost. Prófanir fóru fram bæði á láglendi og á fjallvegum.

Eins og vænta mátti að vetrarlagi náðu rafhlöður bílanna, sem voru 31 talsins, ekki sömu nýtni og afköstum eins og sumar væri og reyndist orkueyðsla þeirra að meðaltali vel yfir 10 prósentum meiri en  uppgefin eyðsla samkvæmt WLTP staðlinum.

Mercedes-Benz EQS stöðvaðist eftir 513 km akstur. Tesla Model 3 Long Range stöðvaðist eftir 521 km akstur og BMW iX xDrive50 náði 500 km.

En það var hinn kínverski BYD Tang sem stóð sig hlutfallslega best og vantaði aðeins 11 prósent upp á að ná hinum uppgefnu 400 kílómetrum á einni rafhleðslu (hann komst 356 km).

Hin nýja Tesla Model Y stóð sig líka vel og komst 451 km en það er frávik upp á 11,05 prósent. Hér skal undirstrikað að síðustu 100 kílómetrarnir voru brattari upp í móti og hitastigið nokkru lægra en þegar BYD Tang glímdi við  sína lokaleið.

Skoðaðu töflurnar!

 Í fyrri töflunni er yfirlit yfir alla bílana í þessari vetrarprófun. Fram kemur hin uppgefna WLTP-drægnitala, tölurnar við keppnislok og frávik frá WLTP. Neðar á síðunni er svo önnur tafla þar sem skráð er staðan við hvert og eitt 50 km áfangastopp. Orkueyðslutölurnar eru skráðar sem kWh/100 km eða kílóWattstundir pr. 100 km. (Á vef NAF/Motor má finna tengla á nánari umfjöllun um einstaka bíla):

PS: Við höfum áður rekið okkur á það að í stöku tilfellum hefur innflytjendum ekki tekistað gefa réttar WLTP-upplýsinga og/eða að upplýsingar um t.d. dekkja- og hjólastærðir prófunarbílannar og ýmsan annan búnað eru ekki réttar. Að þessu sinni gerðist þetta með NIO ES8.  WLTP-drægni hans er 488 km, ekki 500, eins og okkur var fyrst sagt. Búið er að leiðrétta þetta í töflunni. Það var gert  31. janúar.

Í töflunni hér fyrir neðan eru niðurstöður sem vekja sérstaka athygli: Það eru niðurstöðurnar fyrir Skoda Enyaq iV 80 (afturhjóladrifna gerðin) sem bara komst 347 km – meir en fimmtíu kílómetrum skemmra en fjórhjóladrifna gerðin. Venjulega er þetta öfugt – að fjórhjóladrifnu gerðir bíla sömu tegundar hafa lengri drægni.  Tölurnar eru svo mikið út úr kú við það sem ætla mætti, að ákveðið hefur verið að endurtaka prófið á iV 80 á þessari sömu leið hið fyrsta.

Drægnitölur Vetrarpróf Rafbílar 2022

Prófunarleiðin (keppnisleiðin) lá frá Osló, um Lygnasæter, Gjøvik, Ringebu, Dombås, Hjerkinn, Folldal og síðan suðuryfir Venabygdsfjellet til Ringebu aftur. Bílarnir sem lengst komust stöðvuðust rétt norðan við Kvam.

Bílarnir byrjuðu aksturinn með fullhlaðnar rafhlöður án forhitunar  í bílastæðahúsi í Vulkan-hverfi í Osló þar sem næturhiti var milli 10 og 15 gráður.

 Prófuð voru líka nokkur eintök af eins bílum en með ýmsan mismunandi búnað (td. dekk o.fl.) Hér eru nokkrar áhugaverðustu spurningarnar sem rafbílaprófun ársins leitaðist við að svara:

Hver varð efstur í flokki stórra fjölskyldubíla?

Það er fjölbreytt framboð af dæmigerðum fjölskyldubílum í rafbílaprófunum ársins. Það er gleðileg þróun fyrir neytendur og mjög spennandi fyrir sjálfa prófunina. Það verður hörð barátta milli þeirra bestu um hver verður langdrægastur og hver verður fljótastur að hlaðast upp?

Hversu góður er sá bíll nú í vetrarkuldunum, sem fljótastur var að hlaðast upp í sumarylnum?  

Hyundai Ioniq 5 vakti athygli við hleðslustaurinn í síðustu sumarprófuninni. En nú er komin önnur árstíð og miklu fleiri eru þeir nú orðnir eigendur bílsins, sem sl. sumar fékk einkunnina  «Bestu bílakaup ársins» í tímaritinu Motor, sem hafa greint frá vonbrigðum sínum með hvernig gengur að hlaða  í vetrarkuldanum. Svo vill til að systurbíllinn Kia EV6 er með sömu rafhlöður og Ioniq 5 og hann er einmitt með í þessari vetrarkönnun. Það ætti að hafa svarað einhverjum spurningum.

Hverju breytir þakboxið? 

Í þessari könnun eru þrír bílar af tegundinni Polestar 2. Tveir þeirra eru af gerðinni Long Range med fjórhjóladrifi. Á öðrum er þakbox með 170 kíló af farangri. Hvaða áhrif hefur það á eyðslu og drægi?

Hverju breyta mismunandi hjólbarðastærðir? 

Í prófuninni nú eru þrír Hyundai Ioniq 5. Tveir þeirra eru fjórhjóladrifnir og allur búnaður þeirra er sá sami - með einni undantekningu: Undir öðrum eru hjól af stærðinni 235/55-19, undir hinum eru 255/45-20-hjól. Hér fáum við svör við því hvað lítilsháttar þyngdarmunur og örlítið stærri snertifletir við veginn þýða.

Hvað skilur í milli þríburanna í VW-fjölskyldunni? 

Í prófuninni eru sex afar líkar gerðir VW-bíla sem allar eru afar fjölskylduvænar. Ef við teljum hinn dálítið sérstaka ID.3 Pro með, eru bílarnir sjö. Í þeim öllum er sama rafhlöðusamstæðan en þó er drægið mjög misjafnt. Við hleðslustólpann ættu þeir að hlaðast upp með sama hætti, en gera þeir það í raun?

Er hinn nýi stórvaxni BMW-jeppi sparneytinn á við litla bróður? 

Í fyrravetur kom BMW iX3 á óvart fyrir hve sparneytinn hann var. Það verður gaman að sjá hvort hið sama er með nýjustu BMW bílana, sérstaklega þó með hinn glænýja iX sem hannaður er og byggður frá grunni sem rafbíll og er hér prófaður með tveimur misstórum rafhlöðusamstæðum ásamt hinum sportlega i4,

Hver dregur lengst? 

Í þessu prófi keppa bílarnir fyrst og fremst við sjálfa sig – hvort þeir uppfylli uppgefnar WLTP-tölur. Drægi rafbíla skiptir nefnilega miklu máli fyrir mjög marga bílakaupendur. Það sannar allur sá fjöldi sem gerði Tesla Model 3 að söluhæsta bíl í Noregi á síðasta ári. Model 3 er með í þessari prófun sem viðmiðunarbíll þessu sviði og nokkurskonar vísbending um hversu langt hóflega verðlagðir bílar geta náð langt í keppni við lúxusbílana frá BMW (iX) og Mercedes (EQS).

 Vetrarprófun rafbíla 2022